Kvittun

Er að taka til í tölvunni og fann ljóð sem ég samdi einu sinni. Er furðulostinn hversu skemmtilegt það er. Svona hljómar það:

Ég óskaði ekki eftir tilveru minni en samt varð ég til.

Rann út í hendur ókunnugs manns og svo í áhuglausar hendur móður minnar.

Krumpaður og kraminn færður á minn nýja stað.

Þar fékk ég nægt næði en enga athygli.

Gleymdur, illa hirtur og  aldrei sinntur.

Einn tiltektardag var ég tekinn og  færðu á minn nýja stað - í endurvinnsluna.

Fæddur, endurrunni og endurfæddur. Greiðslukvittun.

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík.

 


Á morgun segir sá duglegi – í dag sá lati

Hvað er að vera duglegur og hvað er að vera latur? Manneskja sem sefur út er ekki löt, hún er dugleg. Manneskjan sem gengur menntaveginn svo hún fái vel launað starf er ekki dugleg, hún er löt. Nú?

Sá sem vinnur lítið en fær mikið borgað hlýtur að vera latur. En sá sem vinnur mikið og fær lítið borgað hlýtur að vera duglegur. Sá sem sefur út og mætir seint í vinnuna sína trekk í trekk og að lokum missir hana; er hörkuduglegur, því hann nennir að standa í öllu þessu vandræðum; fá slæmt orð á sér, standa í þrasi við yfirmenn, missa vinnuna og leita að annarri vinnu – þetta er ekkert nema dugnaður. Hver skipti sem á að gera eitthvað skemmtilegt þarf að fara í allskonar reddingar til að útvega nokkra aura, þarf oft að neita sér um ýmislega skemmtilega hluti vegna peningaleysis,  manneskjan býr þröngt og borðar jafnvel alltaf sama ruslfæðið; en hún er hörkudugleg.

Sá lati vill alltaf gera verkefnin strax því hann nennir ekki að bíða með þau, nennir ekki að finna hjá sér ró til að bíða eða sleppa að gera hlutinn – allt þarf að gerast strax. Manneskjan er alltaf að huga að heilsunni því hún nennir ekki að vera veik.

Mikill misskilningur er á því að fólk sem vinnur mikið er duglegt, það vinnur mikið svo það eignist mikla peninga svo það getur gert skemmtilega hluti, borðað lúxusmáltíðir og búið í stórri íbúð sem alltaf er hrein; því þær nenna ekki að hafa hana skítuga. Þvílík leti!

Ætlaði að skrifa þennan pistil í gær en sökum dugnaðar beið ég með það þangað til í dag.

Leti-kveðjur,

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík


Kynjakenning Sigþórs

Ætla að varpa fram kenningu sem ég hef verið með um nokkurt skeið. Í framtíðinni mun einhver annar fá heiðurinn af henni en ég mun alltaf vera sá sem kom fyrst með hana. Vil strika undir að þetta er eingöngu kenning og á eftir að koma fram með félasleg-, sálfræðileg- og vísindaleg-rök og rannsóknir henni til stuðnings. Svona hljómar kenningin:

Karlmaðurinn stjórnar því hvert kynið er á ófæddu barni og það fer eftir hegðun og persónuleika hans rétt fyrir getnað og á fyrstu dögum fóstursins. Mæður hafa ekkert með kynið að gera þar sem þeirra hegðun einkennist yfirleitt að mikilli meðfæddri móðurást – eingöngu þegar eitthvað vantar upp á geðheilsu hennar getur það haft áhrif, og það heitir undantekningum.

1.      Stig – sé karlmaður algjörlega ófær um að ala upp barn mun það verða stúlku, því móðirin mun að mestu leiti sjá um uppeldið.

2.      Stig – sé karlmaður fær um að ala upp barn en eingöngu af sama kyni verður það að sjálfsögðu drengur. Algengt er að fyrsta barn hjá ungu fólk sé drengur því faðirinn hefur ekki náð fullum þroska til að ala upp stúlku.

3.      Stig – sé karlmaður fær um að ala upp stúlku mun stúlka fæðast.

4.      Stig – sé karlmaður mjög hæfur til að ala upp barn mun fæðast drengur sem hefur mikla tilburði til að ná langt í lífinu.

Þetta er einföld túlkun á kenningunni minni. Svo koma allskonar undatekningar, eins og einstaklingar sem fæðast samkynhneigðir – þeir einstaklingar fæðast milli bila (t.d. faðir sem er í 4. stigi en er mjög nálægt 3. stig myndi eignast samkynhneigðan drengur). Einnig geta tvíburar fæðast af sitthvoru kyninu ef faðirinn er milli bila.Hingað til hef ég geta sé kynið fyrirfram í öllum tilvikum þar sem ég þekki foreldrana vel. En þar er einmitt vandinn við kenninguna; í hvaða stig skal setja væntan föður.

Kynja kveðjur,

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík.


Lífið er saltfiskur

Heima hjá ömmu og afa var uppstoppað ýsuflak á veggnum og undir því stóð: „lífið er saltfiskur,“ ég ungur að árum velti því mikið fyrir mér hvað þetta þýddi nú eiginlega. Hvernig getur lífið verið saltfiskur? Þau svör sem ég fékk frá ömmu og afa þóknuðust mér ekki, eitthvað um að saltfiskur hefur komið Íslandi úr sárafátækt.

Enn þann dag í dag er ég ekki sannfærður um að lífið sé saltfiskur en það eru til nokkur þungavigtar hugtök sem geta skilgreint lífið og tilgang þess: hamingjan, að vera meðvitaður um langanir og nýjast hugtakið í mínum huga – samningatækni. Þessi listi er engan veginn tæmandi og munum við mannfólkið stanslaust  reyna að bæta við þennan lista og finna hinn raunverulega tilgang lífsins. En af hverju er samningatækni svona mikilvæg? Því allt í lífinu snýr að samningatækni. Hvernig við útdeilum auðlindum jarðarinnar milli manna og dýra er ekkert nema samningatækni. Vond hlutskipti Afríku mætti kannski rekja við slæmra samninga við Evrópubúa á fyrri öldum?

Mont

Afbrýðisemi er algengur fylgifiskur ef einhver segir frá eigin afrekum eða sé ánægður með eigið ágæti; sá hinn sami er yfirleitt talinn montinn. Það að segja sannleikanum um sjálfan getur talist dónalegt ef sannleikurinn er um eigið ágæti.

Afbrýðisemi er orðinn leiðinlegur kvilli sem fylgir íslensku þjóðinni (eða mannkyninu ef því er að skipta). Stundum á það sér eðlilegar skýringar, eins og þegar sumir fæðast með silfurskeið í rassinum og aðrir fæðast naktir, sárþjáðir og sárafátækir; og eru þannig allt sitt líf. Auðnum er nefnilega sjaldnast deilt niður á sem sanngjarnasta máta – að fólk fá sanngjörn laun fyrir sína vinnu, sanngjörn tækifæri til að nýta hæfni sína er sjaldséð. Ef einhver er ósáttur í vinnunni sinni getur hann hugsað að ábyggilega 100.000 Indverjar gætu unnið vinnuna hans betur og gæfu hiklaust aleiguna fyrir slíkt tækifæri.

Í nútímanum þarf einn bónda þar sem í gamla daga þurfti 1000 til að framleiða sama magn af mat (að sjálfsögu ekki heilög tala en er samt örugglega nokkuð nálægt því). Í því samhegni má spyrja sig hvaða eru hinir 999 að gera í stað þess að framleiða mat eins og áður – mannkynið ætti þá að þurfa að vinna 1000 sinnum minna í dag en áður og enginn ætti að verða svangur, en svo er ekki raunin. Það þarf engan heilaskurðlæknir til að sjá að sú (tækni)þróun sem mannkynið hefur gengið í gegnum er ekki að skila sér að fullu til einstaklinga. Eingöngu lítið brot af þeirri þróun er kominn í daglegt líf almúgans.

Var að lesa bókina Bréf til Láru eftir Þorberg Þórðarson frá 1924 og það kom mér verulega á óvart hversu lítið hefur breyst í íslensku samfélagi, mun minna en ég hefur áður haldið. Hin mannlega vera hefur ekkert þróast á þessum 86 árum – aðeins tæknin. Eins og áður þá er alltaf verið að níðast á litla manninum, spilling og klíkuskapur er samur við sig.

Að lokum, ætla ég að verða svo djarfur og monta mig. Birta tvær myndir; af þeim augnablikum á undanförnum dögum sem ég er hvað stoltastur um eigið ágæti.

Montblog1

Montblog2Þær sýna báðar upphaf og endalok, og von um sanngjörn tækifæri – og mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur að svo verði.

 Mont kveðjur,Sigþór Björgvinsson, Reykjavík

Endursýningar

Sem dyggur stuðningsmaður Ríkissjónvarpsins hef ég tekið eftir auknum endurtekningu í dagskráliðum hennar. Ástæðan er skýr og einföld; það er verið að spara fjármuni á þessum erfiðu tímum í þjóðfélaginu. En mér finnst þeir ekki ganga nægilega langt í þessum gjörðum sínum. Hvernig væri að endursýna Kastljósið frá síðasta ári, þannig mætti spara mikla fjármuni. Og einnig finnst mér að það eigi að taka upp einn fréttatíma og endursýna hann á hverjum degi klukkan 19:00 og klukkan 22:00. Handritið af fréttatímanum gæti verið svona:

Frétt 1: Útrásarníðingur selur náttúruauðlindir Íslands og einnig framtíðarkynslóða í þrældóm

Hinn bráð-snjalli níðingur hefur sýnt snilli sína enn á ný. Öll munum við eftir fjármálagjörningum hans þar sem hann seldi ömmu sýna. Svo tók hann lán frá hinni ömmu sinni og keypta þá fyrstu til baka á undirverði. Lánið borgaði hann aldrei, heldur yfirfærði kröfurnar yfir á gamalt skópar sem hann átti. Svo nýtti hann sér rétt sinn og keypti hana til baka með því að nýta kaupréttinn sinn. Og að lokum seldi þær báðar í þrældóm til siðmenntað ríki í Afríku. Allt skilaði þetta miklum hagnaði, svo miklum að forsetinn beitti áhrifum sínum til að fá hann veittan nóbelsverðlaunum fyrir fjármála- og viðskipta-snilld.

Fréttmaður spyr: „jæja meistari, enn og aftur sannarðu snilli þína, hvernig ferð eiginlega að þessu?“

Útrásarníðingur: „það er eitt einfalt svar við því skal ég segja þér það: mér er hinn rétta blanda snillings í blóði borin; algjörlega siðlaus.“

Fréttamaðurinn: „já þú ert meiri snillingurinn.“

Útrásarníðingur: „þar hittirðu naglann á höfuðið, ég er snillingur, og ef allur hinn íslenski skríllinn væri jafn gáfaður og ég þá yrði Ísland ríkasta landi í heimi á no time,“ svo hélt hann um vömb sér og byrjaði að hlæja, fyrst rólega og hljótt og svo jók hann hraðann og styrkinn í hlátrinum uns öll ungbörn í hverfinu voru vöknuð við mikinn hrylling.

Frétt 2: Ofsa-akstur endaði vel

Enn einn ökuníðingurinn og fábjáninn ók eins og honum er lagið – eins og fífl. Níðingurinn mældist á geðveikt miklum hraða og öllu gjörðir hans mikilli hættu fyrri allt samfélagið. Ekki er talið að níðungur var að flýta sér, því hann er svo ómerkilega mannvera að það getur varla verið að hann sé að gera eitthvað merkilegt, heldur er talaði að akstur sé vegna athyglisþarfar og þörf á viðurkenningu frá samfélaginu – en allir vita það nema þessi sauður að þær mun aldrei hljóta. Ökuferðin endaði með því að ökuníðingur skauts útúr bílnum og alla leið út í geiminn – lögreglumönnum til mikillar furðu og ánægju.

Frétt 3: Nauðgun á útihátíð

Ófreskja kom fram vilja sínum við kona á útihátíð – sem var haldin einhversstaðar. Öllum til mikillar furðu komst skrímslið út búri sínu, nauðgarinn er auðþekkjanlegur þar sem hann er óvenju ófríður -  það ófríður að lífsins ómögulegt er að horfa á hann lengur en tvær sekúndu án þessa að æla og missa svo meðvitund  (þannig átti nauðgunin sér stað líklegast). Kona mun að sjálfsögu kæra þar sem hennar tiltrú á íslenskir réttvísi er mikil – og hver sagði að Pollýanna væri jákvæð og bjartsýn?

Íþróttafréttir:

Gaur skoraði mark fyrir lið sitt og varð ofsa-glaður ekki vegna þess að liðið hans vann heldur vegna þessa að hann fær svo háan bónus fyrir að skora mark. Hann er rosalega flottur gaur og geðveikt fínn.

Aðrar íþróttafréttur eru óæðri þar sem aðeins um áhugamenn er að ræða ekki við sýnum ekki frá þeim í okkar dagsráliðum og væri því algjör sturlun að fjalla um þær hér.

Veðurfréttir (muna að lesa alltaf í sama tón):

Það er allra veðra von, ein mínútuna getur verið rigning og þá næstu kannski sól eða snjókomma. Hiti verður frá -50° til +50° á landinu öllu. Hvert sem þið farið, takið fataskápinn með ykkur ef þið viljið vera rétt klædd og eitthvað verður um hægðir en það tengist veðrinu ekki beint, verið sæl.


mbl.is Eðlisbreyting á starfsemi RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjur

Orðið hetja er skilgreint í orðabók; kappi eða hraustmenni. Þannig er það oft notað um íþróttamenn og í sjálfum sér ekkert rangt við það. En það að vera hetja finnst mér vera eitthvað annað, frekar einstaklingur sem fórnar sér fyrir göfugan málstað, eða fórni eigin hagsmunum fyrir velferð annarra.

Því samkvæmt mínum skilgreiningum getur einstaklingur ekki verði hetja fyrir það eitt að vera til dæmis fótboltamaður, þó fótboltamaður geti vissulega verið hetja liðsins eða jafnvel þjóðhetja þegar árangur er góður á HM – eða hetja fyrir önnur afrek. En hann getur aldrei verið knattspyrnuhetja því það í sjálfum sér er nákvæmlega ekkert hetjulegt, að vera fullorðinn maður í tuðrusparki og drengjaleik, - og fá jafnvel milljónir eða milljarða í laun er ekkert hetjulegt.

Náungi að nafni Bradford kom fram með kapítalíska kenningu um eðlileg laun: „Fótboltamaðurinn þjónar fleiri en til dæmis hjúkrunarfræðingurinn og ætti því að fá hærri laun eftir því.“ Skemmtileg kenning en það er eitt mjög alvarlega rangt við hana, og allan kapítalisma ef því er að skipta; hvað með mikilvægi starfs?

Eftir að hafa fylgst með kærustunni ganga í gegnum fæðingu, gerir maður sér betur grein fyrir því hvað hetjur eru. Í minni raun eru mæður, ljósmæður, læknar og hjúkrunarfræðingar hetjur. Starfsfólk spítalans eru svo mikið gæðablóð, og þori að fullyrða að þar sé ekki mannfólk á ferð heldur englar í dulargervi; þar sem þeirra dagsverk eru hetjuverk. Mæður eru hetjur því þeirra verk eru göfug og hugsa þær ósjaldan um velverð annarra umfram eigin.


Ó-heilbrigð samkeppni

Það sem er gott við samkeppni er aðhald. Aðhald að menn séu á tánum og stöðugt að gera betur og betur, læra meira og meira, þróa og uppgötva.

En er samkeppni góð í öllum tilvikum? Dýru verði keypt? Eða jafnvel slæm?

Ef við útilokum verðsamráð, spillingu og önnur hugguleg heiti. Það má nefna fleiri þætti sem rökstuðning gegn samkeppni. Tökum farsímamarkaðinn sem dæmi. Hér á land starfar fjögur farsímafyrirtæki: Nova, Síminn, Tal og Vodafone. Í Bretlandi eru þau einu fleiri (O2, Orange, Hutchison 3G, T-Mobile og Vodafone). Á Íslandi bjuggu 317.630, þann 1. janúar 2010, og í Bretlandi 61.284.806 í júlí 2010. Hjá þessum fjórum íslensku fyrirtækjum eru 4 forstjórar á forstjóralaunum, 4x(framkvæmdastjórn, markaðsdeild, og allskonar yfirmenn, undirmenn og undirgefnir menn).Öll stærðarhagkvæmi eyðist út. Póst- og fjarskiptastofnun, og samkeppniseftirlit fylgjast grandlega með að allt fara nú fram samkvæmt samkeppnislögum - með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Ef Bretum dugar fimm, þurfum við þá að hafa fjögur?

Og til að bæta gráu ofan á svart er Vodafone að fá [tilfærslu] skulda upp á 28 milljarða og í sömu andrá að kæra Símann fyrir að fá verkefni frá ríkinu upp á rúma 600 milljónir og  Vodafone segir að það sé ríkisstyrkur – nú mun lögfræðingar á fínum töxtum setjast yfir þetta, dómstólar að fara yfir o.s.frv. Og hver borgar brúsann á öllum herlegheitunum? Nú, almenningur.

Er samkeppni þess virði? Við fáum aðhald með samkeppni en getur ekki eins verið stofnun eins og samkeppnisstofnum sem hefur aðhald af fyrirtækjum sem eru ekki í samkeppni. Eða enn betra að aðhaldið komi frá almenningi með neyslustýringu – hreinlega hætta, eða minnka, að nota vöruna ef á okkur er brotið.

Guð blessi Ísland.

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík.


mbl.is Vodafone svarar Fjarskiptasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta smásaga í heimi - kannski

Samkvæmt mínum útreikningum eru líkurnar á því að vinna í íslensku lottói 0,00000151974%. Vinningurinn þarf að vera hærri en 65.800.800 krónur svo fjárhagslega hagkvæmt sé að taka þátt; ef væntur vinningur er svo mikill bókstaflega borgar sig að lottóa (af því gefnu að enginn annar vinnur). En ef væntur vinningur er undir þessari fjárhæð borgar sig ekki að taka þátt – en samt stunda margir lottóið vikulega þó það sé ekki fjárhagslega skynsamlegt, af hverju? Jú, sú tilhugsun að eiga möguleika á nokkrum milljónum er skemmtileg og vel þess virði að borga fyrir þó það sé ekki fjárhagslega hagkvæmt út frá hag- eða stærðfræðilegum útreikningum.

Sumir vilja meina að eitt af bestu verkum Ernest Hemingway sé sex orða smásagan: „For sale: Baby shoes, never worn.“  

Eftir þessar vangaveltur um lottóið fór ég að spá: hvort það sé hægt að lottóa um ýmsa hlut. Ef maður velur orð af handahófi úr orðabók, hverjar eru þá líkurnar á því að útkoman verða eitt meistarastykki? Reglurnar eru þær að velja að handhófi sex orð og raða þeim saman af eigin vild, tíðni, falli og einnig má ráða hvort komma, punktar, spurningamerki og svo framvegis sé notað.

Minn útdráttur er þessi: Burðarliðu samskipti skutbryggju fjölveiðiskipa: glatkistu nýbyggð.

Jæja, gangi mér betur næst.


Til hvers að skrifa þegar maður á svo margt ólesið?

Lengi hefur mig langað að vera rithöfundur. Þegar ég var yngri las ég ekkert eftir aðra því ég vildi ekki stela frá þeim. Þetta er svipað eins og að ætla að verða afreksíþróttamaður og vera alltaf að hvíla sig fyrir alvöru átökin – ekki fer ég að eyða orkunni í æfingar þegar hægt er að nota hana í úrslitaleik á HM; gangi honum vel að komast þangað.

Vændiskonan sagði: „líkama minn getur fengið en hugsanir mínar færðu aldrei.“ Hjá rithöfundi er þessu þveröfugt farið – að skrifa er að gefa aðgang að hugsunum. Það er heiðarlegasta starf í heimi. En hversu heiðarlegt er það ef maður er alltaf í einhverjum þykjustuleik, þorir ekkert að láta frá sér nema hafa skrifa með villuleitarforriti, látið annan lesa yfir, vera með „réttar“ skoðanir og svo framvegis? Ég mun alltaf gera mitt besta við skrifin og er ávallt tilbúinn að bæta mig en það verður seint fullkomið enda er fullkomnunaráráttan ein helsti óvinur framtakseminnar, aðalóvinurinn er ábygglega letin.

Tímamót eru sérstök. Í senn upphaf og endalok. Það að byrja að skrifa fyrir umheiminn eru ákveðin tímamót. Nú fara hugsanir á tölvuskjá og út í hinn stóra heim og þær verða aldrei teknar til baka.

Þessi skrif (finnst orðið blogg ljótt og vill ekki að nota það) eru fyrir mig. Þegar ég er í stuði mun ég koma með hugmyndir, vangaveltur, fróðleik og jafnvel vitleysu. Ef það nýtist öðrum og aðrir hafa gaman af; fínt. En ef það nýtist ekki öðrum og aðrir hafa ekki gaman af; fínt. Skiptir mig ekki máli.

Njótið vel eða ekki.

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband