7. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Börnin vöknuðu við píanóspil föður síns, pabbi gleymdi alltaf stað og stund þegar hann sat við gamla píanóið sem pabbi hans hafði átt á undan honum og pabbi hans á undan honum. Pabbi leit hissa á systkinin og á klukkuna til skiptis.

P7262077„Hvað, bara komin strax á fætur?“ spurði pabbi. „Þið sem fóruð svo seint í háttinn í gær. Fáið ykkur sæti, ég ætla að útbúa morgunmat.“

Systkinin horfðu pínu hneyksluð á hvort annað og hristu höfuðið, þau hefðu ekki vaknað svona snemma ef pabbi hefði ekki verið að spila svona hátt á píanóið. Svo snæddu þau fjölrétta morgunverð sem pabbi hafði galdrað fram. Þegar þrímenningarnir höfðu lokið við morgunmatinn og voru að ganga frá heyrðu þau bifreið aka inn í innkeyrsluna. Adam stökk til dyra og sá gamla manninn stíga út úr jeppanum sínum. Adam tók eftir að svipurinn á gamla manninum hafði breyst. Honum sýndist hann sjá nýtt blik í augunum og þegar hann kom auga á systkinin og pabba breiddist einlægt bjart bros yfir andlit hans.

„Komið þið sæl og blessuð,“ sagði sá gamli hressilega og heilsaði pabba með handabandi. „Ég er með nokkuð mjög sérstakt meðferðis sem mig langar til að sýna ykkur.“

DSC00994Sá gamli gekk að jeppanum og opnaði skottið. Börnin gægðust inn. Þarna var stór pappakassi en yfir hann hafði verið breitt teppi. Í kassann var búið að skera nokkur ferköntuð göt og einnig rifur sem virkuðu einsog lítil hurð og litlir gluggar.

„Jæja, kíkið í kassann!“

Börnin voru mjög spennt en pabba virtist takast að halda ró sinni. Adam og Embla lyftu teppinu í sameiningu og kíktu stóreyg niður í kassann. Ja, hérna, þarna blasti við skrýtin sjón en þó kunnugleg. Í kassanum mátti sjá talsverðan fjölda af pínulitlu  fólki sem horfði eftirvæntingarfullt upp til þeirra og veifaði til þeirra. Pabbi og sá gamli lyftu síðan kassanum í sameiningu og gengu gætilega með hann í átt að húsi gamla mannsins og börnin fylgdu þeim fast á eftir. Þeir báru kassann á milli sín í gegnum húsið og inn í garðinn og lögðu hann frá sér á grasflötina. Allt pínulitla fólkið í garðinum hraðaði sér nú í áttina að þeim og flýtti sér að safnast í kringum kassann. Eftirvænting og tilhlökkun skein af hverju andliti.

„Ég er með smá glaðning handa ykkur,“ sagði sá gamli hátt og skýrt, íbygginn á svip og lyfti teppinu af kassanum. Síðan opnaði hann litlu hurðina á kassanum og pínulitla fólkið gekk út hvert á fætur öðru.

Nú rann upp mikil hátíðar- og gleðistund þegar allt pínulitla fólkið í garðinum sá allt nýkomna pínulitla fólkið. Mikil fagnaðarlæti brutust út og allar pínulitlu verurnar kepptust við að fallast í faðma og heilsa hvert öðru. Á einu andartaki hafði íbúafjöldinn í garðinum tvöfaldast.

Nú var mikið verk framundan. Allir nýju íbúarnir þurftu ný húsakynni til þess að búa í og systkinin létu ekki sitt eftir liggja að hjálpa til við húsasmíðarnar. Pabbi, Adam og Embla settu upp smíðaverkstæði í bílskúrnum og hófust handa við að smíði lítilla húsa fyrir nýju íbúana. Embla sá um hönnunina og teiknaði falleg tveggja hæða hús með hallandi þaki og svölum. Pabbi sá um að saga og negla saman spýturnar með aðstoð Adams, og Mamma sá að mestu um að mála litlu húsin. Eftir þrotlausa vinnu horfði fjölskyldan  á litlu fallegu húsin sem höfðu orðið til á ótrúlega skömmum tíma.

„Humm…   Það er ýmislegt sem vantar enn, sagði pabbi hugsi.“

„Já, pínulítil húsgögn, sagði Embla.“

„Já, auðvitað.“

Og fjölskyldan fór því næst að búa til pínulítil borð, stóla og rúm og sauma sængur og dúka. Gamli maðurinn fylgdist áhugasamur með gangi mála og mamma heimtaði að heyra ferðasöguna.
Gamli maðurinn kom sér þægilega fyrir og hóf frásögnina:

„Ég var búinn að fá ábendingu um að hópur af pínulitlu fólki væri í hættu statt á hálendi Íslands en hafði engar upplýsingar um nákvæma staðsetningu þeirra. Þegar ég og litlu sérsveitarmennirnir mínir fjórir höfðum ekið um hálendið í nokkra daga, án árangurs, voru við orðnir vonlitlir um að finna nokkra sálu. Við höfðum ekið um svarta auðnina, fram og til baka og vorum komnir þar sem jeppinn komst ekki lengra. Við tjölduðum því við fallegan foss þarna inn í miðjum óbyggðum. Í fjarlægð sáum við gæsir sem voru að sýsla við hreiðrin sín. Þá fékk einn litli sérsveitarmaðurinn þá hugmynd að tveir þeirra myndu skella sér á bak einnar grágæsarinnar og leita í lofti að álitlegum stöðum þar mögulegt væri að finna pínulítið fólk. Meðan við héldum áfram að svipast um í næsta nágrenni fóru þeir í þessa hættuför og við biðum í mikilli óvissu eftir þeim. Daginn eftir kom gæsin að heilu og höldnu með þá til baka og viti menn! Í þessari hættuför höfðu þeir komið auga á sannkallaða paradís á jörðu þar sem pínulítið fólk var búið að koma sér vel fyrir. Þangað var ekki hægt að komast akandi og því brugðum við á það ráð að ganga alla leiðina undir leiðsögn sérsveitamannanna. Sú för var bæði hættuleg og erfið. Við gengum í hrauninu en gátum ekki farið stystu leið vegna þess að gil og gjótur leyndust víða á leiðinni. Við þurftum því að gæta þess vel að falla ekki niður í gilin og gjóturnar.“

P7261938

DSC00628                                

 

 

 

 

 

 

„Að lokum komum við inn í fagran dal við fallegt stöðuvatn. Í einni hlíðinni, við lækjarsprænu og fossaflúðir var pínulítið fólk búið að koma sér vel fyrir. Þarna bjó það í berjalynginu og var búð að byggja bogabrú yfir lækjarsprænuna. Þarna var urmull af húsum og þessi byggð líktist smækkaðri mynd af borg. Sum húsanna voru margar hæðir. Þarna voru einnig göng neðanjarðar sem þau ferðuðust um þegar snjórinn var mikill. Ég sagði þeim frá því að þarna væri þeim mikil hætta búin af því að fyrirhugað væri að þetta svæði færi undir vatn. Fyrst vildu þau ekki trúa mér og neituðu að fara, sögðu að þarna hefðu þau alltaf lifað og vildu hvergi annars staðar vera. Einn sérsveitarmaðurinn flutti þeim sannfærandi ræðu þar sem hann útskýrði vel fyrir þeim af hverju þeim væri mikil hætta búin. Hann sagði þeim jafnframt að þeirra biðu ný örugg heimkynni í garðinum við húsið mitt og að þar gætu þau tekið gleði sína á ný með aðstoð ættingja sinna þar og hann fullvissaði þau um að þar væri gott að vera.“

DSC00902„Með miklum söknuði þurfti því pínulitla fólkið að yfirgefa heimili sín. Við hjálpuðum þeim að pakka niður því sem þau gátu tekið með sér. Við þurftum auðvitað að skilja eftir margvísleg verðmæti; öll fallegu húsin, brýrnar og ýmsan húsbúnað. Ég gat engan veginn flutt þetta allt saman fótgangandi og það var auðvitað ekki heldur á þeirra færi.“

„Þau höfðu búið við þetta vatn frá því elstu, minnstu menn mundu. Nú er það skylda okkar að búa eins vel að þeim og kostur er. Þau hafa misst heimili sín og við munum aðstoða þau við að eignast ný heimili svo þau geti tekið gleði sína á ný. Þau verða eflaust afar þakklát fyrir ykkar þátttöku.“

Eftir að fjölskyldan hafði hlustað á frásögn gamla mannsins lagði hún lokahönd á pínulitlu húsgögnin og lögðu síðan leið sína til pínulitla fólksins með afraksturinn. Allt litla fólkið var mjög undrandi yfir þessum nýju glæsilegu híbýlum og fallegu húsgögnum. Embla útskýrði fyrir þeim hvernig öllu var fyrir komið og svo hjálpuðust allir við að koma húsunum og innbúinu fyrir á sinn stað. Sum húsin voru sett upp í tré og stígar lagðir upp að þeim, sum voru sett á milli stórra steina í garðinum og önnur voru bara sett beint á grasið. Sú staðsetning hentaði þeim lofthræddu vel eða þeim sem voru myrkfælnir og kusu því ekki að búa í skugganum á milli steinanna. Nýju íbúarnir fundu svo sannarlega að þeir voru velkomnir á þennan nýja, fallega stað. Þeir voru fullvissaðir um að hér biði þeirra gott og öruggt líf.

Á þessari stundu voru því allir glaðir og enginn sorgmæddur yfir því að hafa þurft að flytja. Allir höfðu eignast fjöldann allan af nýjum vinum. Spennandi og gleðilegir tímar voru framundan fyrir gamla manninn, pínulitla fólkið og fjölskyldu Adams og Emblu.

P7262074

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík.


6. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Svo liðu dagarnir; Adam, Embla og pínulitla fólkið höfðu skemmt sér rækilega saman við ýmsa iðju en aldrei fóru þau út fyrir garðinn. Systkinin höfðu meðal annars farið með talsvert af leikföngunum sínum til þess að sýna pínulitla fólkinu og leika sér við það. Litla fólkinu þótti sérstaklega gaman að kubbunum. Það var hægt að gera svo margt skemmtilegt úr þeim. Adam sá um að leggja kubbana saman eftir tilsögn litla fólksins. Þau voru búin að kubba saman ótrúlega flottan kastala sem var með stóran turn. Þar kom Lýður sér fyrir og horfði yfir garð pínulitla fólksins og fékk að vera kóngur um stund.

Þau voru líka búin að byggja völundarhús. Lýður fór inn í mitt völundarhúsið og reyndi síðan ákafur að finna réttu leiðina út á meðan Adam og Embla fylgdust spennt með hvort honum tækist að leysa þessa flóknu þraut. Þau hrópuðu af fögnuði þegar honum tókst að lokum að finna leiðina. Svo reyndu margir fleiri við völundarhúsið og höfðu gaman af en reyndar tókst sumum ekki að finna leiðina út. Þá komu þau Embla og Adam þeim til hjálpar og lyftu þeim bara upp úr völundarhúsinu.
Embla kom með dúkkuhúsgögn og gaf litla fólkinu þau og vakti það mikla gleði. Þeim fannst þau rosalega flott. Emblu fannst ánægjulegt að gefa þeim húsgögnin, því pínulitla fólkið hafði mun meiri not fyrir þau en hún sjálf og  það var líka svo gaman að gleðja pínulitla fólkið.
Þau léku sér saman allan daginn og það var svo gaman að þau gleymdu meira að segja stundum að borða. Sem betur fer sáu mamma og pabbi við því og komu alltaf annað slagið með ljúffengar veitingar handa Adam, Emblu og pínulitla fólkinu.

Pínulitla fólkið var sérstaklega hrifið að melónum. Allir hjálpuðust við að borða innan úr melónuhelmingum og þegar þau voru búin að borða innihaldið, gerðu þau lítil göt á melónuhýðið og að því búnu settu systkinin melónuhelmingana á hvolf á grasið. Með þeim hætti  gat pínulitla fólkið farið inn í óvenjuleg melónuhús.

P9213036

Einn daginn datt þeim í hug að kenna pínulitla fólkinu reglurnar í fótbolta og körfubolta. Þau bjuggu til pínulítinn fótboltavöll, með litlum mörkum og litlum áheyrandapöllum og ekki leið á löngu  þar til þau höfðu einnig búið til körfuboltavöll á stéttinni. Svo var haldið íþróttamót hjá pínulitla fólkinu. Fyrst var spilað á nýja, glæsilega fótboltavellinum. Adam sá um dómgæsluna en satt að segja var lítið um góð tilþrif í leiknum því þau höfðu auðvitað aldrei leikið fótbolta áður. Þrátt fyrir það skemmtu þau sér prýðilega. Svo var farið í körfubolta og það var líka mjög gaman. Embla var dómari í leiknum og fylgdist vel með að farið væri eftir öllum leikreglum. Þrátt fyrir að þau hefðu aldrei farið í körfubolta áður voru þau samt ótrúlega góð að hitta í körfuna.

Adam og Embla gleymdu alltaf hvað tímanum leið og mamma og pabbi þurftu alltaf að koma að ná í þau þegar það var kominn háttatími.


5. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Adam og Embla hlökkuðu mikið til að fá nú loksins annað tækifæri til að heilsa upp á pínulitla fólkið í húsi gamla mannsins. Eftir að hafa kvatt hann hröðuðu þau sér strax heim að húsinu. Þegar þangað var komið komu þau auga á Loka og Lýð þar sem þeir sátu í litla árabátnum í fiskabúrinu og voru að ræða málin. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar vinirnir hittust á ný. Lýður hoppaði af kæti og fagnaðarlætin voru svo mikil að litla bátnum hvolfdi og Lýður og Loki duttu báðir ofan í fiskabúrið með miklum gusugangi.

„Hjálp, hjálp,“ kölluðu litlu vinirnir.

Adam var snöggur til og rétti þeim vísifingurinn. Fiskarnir í búrinu voru auðvitað búnir að taka eftir þeim og mátti litlu muna að þeir næðu að narta í þá.

„Takk fyrir lífsbjörgina,“ sagði Loki lafmóður og rennandi blautur.

„Áður en bátnum hvolfdi vorum við einmitt að ákveða að halda veislu í kvöld og nú er ykkur boðið,“ sagði Lýður  við Adam og Emblu.

„Já, það hljómar vel,“ svaraði Adam.

Þrátt fyrir að pínulitla fólkið hefði miklar áhyggjur af fjarlægum skyldmennum í hættu, vildu þau samt gefa sér tíma til að kynnast Adam og Emblu enda þau höfðu ekki fengið tækifæri til þess fyrr en nú. Þetta var líka prýðileg leið til þess að dreifa huganum og þau voru einnig þakklát fyrir aðstoðina við að gæta hússins og garðsins. Systkinin kvöddu nú að sinni en ákveðið var að hittast seinna um daginn. Pínulitla fólkið þurfti auðvitað einhvern tíma til að undirbúa veisluhöldin.

Þegar leið á daginn var tilhlökkun systkinanna orðin svipuð og fyrir jólin. Þau klæddu sig í betri föt og héldu svo spennt til veislunnar. Þegar þau gengu inn í húsið tóku Loki og Lýður vel á móti þeim.

„Velkomin og fylgið mér,“ sagði Lýður með handahreyfingum einsog hann væri að stýra flugvél til stæðis.

Loki og Lýður gengu í broddi fylkingar út í garð. Þeir notuðu  litlar dyr sem lágu út í garð en systkinin notuðu venjulegu dyrnar. Núna máttu þau ganga á grasinu. Spennan leyndi sér ekki og þau fundu fyrir miklum fiðringi í maganum. Þau gengu enn lengra inn í garðinn og í gegnum runna og inn í lítið rjóður. Þar blasti við þeim ótrúleg sjón. Þarna mátti sjá fullt af pínulitlu fólki sem var búið að koma sér fyrir í kringum varðeld eða öllu heldur ósköp venjulegt kerti.GardurogKerti

„Velkomin,“ sungu þau öll í kór.

Systkinin voru svo hissa að þau gleymdu næstum því að anda.

„Fáið ykkur sæti,“ sagði gamall pínulítill karl.

Þau tylltu sér í mosann og horfðu vel og vandlega í kringum sig á allt pínulitla fólkið, sem starði á þau á móti einsog  þau væru einhvers konar viðundur. Þau horfðu einnig á agnarsmáu húsin sem voru á milli steinanna eða upp í trjánum. Litlir stigar og litlar brýr lágu víða á milli húsanna.

„Jæja, hvernig finnst ykkur?“ spurði gamli pínulitli karlinn.

Systkinin voru svo hissa að þau svöruðu ekki einu sinni. Þau störðu bara á allt í kringum sig. Allt pínulitla fólkið starði á þau til baka og beið spennt eftir svari.

„Ha? Já...   Þetta er stórmerkilegt,“ sagði Adam, og Embla kinkaði kolli.ParkGuell2

Spurningar í huga systkinanna voru margar. Af hverju voru þau svona lítil? Af hverju vissi enginn af öllu þessu pínulitla fólki? Þurftu þau að fara í skóla eða vinnu? Hvað gerðu þau þegar það snjóaði mikið? Hvað borðuðu þau eiginlega? Varla gátu þau veitt fisk, nema kannski pínulítil síli.

„Smakkið á þjóðarréttinum okkar,“ sagði ein litla veran og benti þeim á skál fulla af ýmiskonar berjum.

Þarna mátti líta bláber, krækiber, sólber og rifsber sem búið var að blanda saman í stórri skál.
Systkinin gæddu sér á þjóðarréttinum.

„Berin eru góð á bragðið,“ sagði Adam, „hvað borðið þið annað?“

„Annað? Við þurfum ekkert annað,“ sagði ein pínulitla veran.

„Er þetta það eina sem þið borðið?“ spurði Adam.

„Nei, nei, við borðum líka kræki- og bláberjarétti og stundum hrúta- og sólberjarétti. Okkur líkar vel að borða berin eintóm og einnig stöppuð, það er mikil fjölbreytni í þessu hjá okkur,“ sagði stolta pínulitla manneskjan.

„Hafið þið þá aldrei smakkað ávexti einsog banana eða epli?“

„Jú jú, sá gamli hefur stundum gefið okkur ávexti og okkur finnst þeir mjög góðir en bragðið á eplum höfum við aldrei fundið,“ sagði Lýður.

Adam og Embla horfðu á pínulitla fólkið og voru svolítið hissa á einföldum matarvenjum þeirra.

„Finnst ykkur ekki leiðinlegt að vera alltaf bara í garðinum?“ spurði Adam.

„Nei, alls ekki, hér er allt til alls og við þurfum ekkert að fara út fyrir garðinn,“ svaraði gamla, pínulitla veran fyrir hönd litla fólksins.

„Leiðist ykkur aldrei? Langar ykkur ekki að vita hvað er fyrir utan þessa girðingu.“

„Okkur leiðist aldrei, við höfum hvert annað og forfeður okkar hafa sagt okkur fullt af sögum um hvað hefur gerst í gegnum tíðina fyrir utan þessa girðingu.“

„Getið þið þá sagt okkur söguna um hvernig þið enduðu í þessu garði?“ spurði Embla.

„Já, ég get sko aldeilis sagt ykkur þá sögu,“ sagði gamla, pínulitla veran.

„Forfeður okkar bjuggu allir á meginlandi Evrópu. Síðan kom að því að atgangur mannanna var orðin100_4476 svo mikill að hvergi var hægt að vera í friði því stórborgum, hraðbrautum eða verksmiðjum var alltaf að fjölga. Okkar fólk var farið að sárvanta náttúrulegt umhverfi til að vera í svo forfeður okkur urðu að finna lausn á þessum vanda. Eitt vorið tóku þau á það ráð að gerast laumufarþegar á grágæsum þegar þær lögðu af stað til sumardvalar. Ferðin gekk ekki slysalaust fyrir sig. Sumt af okkar fólki datt af baki og aðrir þoldu ekki kuldann í háloftunum. Við hérna erum afkomendur fyrsta hópsins sem lagði af stað í þessa hættuför. Í fyrstu vissum við ekkert um hvort fleira af okkar fólki hefði skilað sér hingað til Íslands. Eftir að við kynntumst gamla manninum aðstoðaði hann okkur við að afla upplýsinga um að við ættum skyldmenni um allt land. Við erum mjög heppin að hafa kynnst þeim gamla sem skaut yfir okkur skjólhúsi á sínum tíma. Nú virðist sagan ætla að endurtaka sig með því að hann er lagður af stað til þess að leggja fjarlægum skyldmennum okkar lið þar sem þau er í hættu stödd því stóra fólkið er farið að taka af þeim náttúruna enn á ný.“

100_4552

100_4579

 

 

 

 

 

 

Svo fóru fleiri pínulitlar verur að segja frá spennandi ævintýrum og Adam og Embla hlustuðu á frásagnir þeirra. Síðan var röðin komin að þeim að segja frá. Þau sögðu meðal annars frá leikföngunum sínum og skemmtilegu boltaleikjunum sem þau voru alltaf í. Allir skiptust á sögum langt fram eftir kvöldi eða alveg þangað til að þau gátu ekki lengur haldið sér vakandi og sofnuðu hvert á fætur öðru í mjúkum mosanum. Þannig komu mamma og pabbi að þeim og báru þau sofandi heim.


4. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Lífið gekk áfram sinn vanagang en Adam og Embla höfðu ekki hitt pínulitla fólkið í marga daga, eða alveg síðan þau voru að leika sér í pollinum með bátinn. Systkinin sátu úti í glugga í herberginu sínu og horfðu á stóru virkisveggina og ímynduðu sér hvað Loki, Lýður og allt hitt pínulitla fólkið væri að brasa hinumegin við veggina. Þau langaði að leika meira við þá og líka að hitta allt pínulitla fólkið. Það mun líklega ekki gerast í bráð, sennilega aldrei ræddu börnin í sífellu og rifjuðu enn og aftur upp heimsóknina í dularfulla húsið.

Nú barst kaffiilmur úr eldhúsinu. Börnin kunnu vel við kaffilykt. Ekki vegna þess að þeim fannst kaffi svo gott, heldur vegna þess að það þýddi að mamma og pabbi voru heima í rólegheitum og ekki á leið til vinnu eða neitt svoleiðis.

„Adam! Embla!“ kallaði mamma skyndilega úr eldhúsinu. „Komið þið niður í eldhús. Það er kominn gestur.“

Adam og Embla gengu niður stigann og var nokkuð brugðið þegar þau heyrðu rödd sem þau könnuðust við og sáu að gamli maðurinn sat við eldhúsborðið og var í hrókasamræðum við pabba. Börnin vissu ekki alveg hvernig þau áttu að bregðast við því þau höfðu ekki hitt gamla manninn síðan þau höfðu tekið þá Lýð og Loka með sér í leyfisleysi.

„Heilsið þið gestinum krakkar mínir og fáið ykkur sæti,“ sagði pabbi. „Þetta er nokkuð óvænt, en gesturinn okkar var að enda við að ræða við mig nokkuð sem ykkur gæti þótt spennandi að heyra en fyrst þurfið þið auðvitað að biðjast afsökunar á að hafa farið inn til hans í leyfisleysi um daginn.“
Börnin heilsuðu og horfðu síðan á gamla manninn með eftirvæntingu og sögðu:

„Já, fyrirgefðu. Við munu aldrei óhlýðnast svona aftur. Við bara gleymdum okkur af því að okkur langaði svo að hitta Loka og Lýð aftur.“

„Þið þurfið ávallt að fá mitt leyfi til þess,“ sagði sá gamli, „en fyrst ég sé að þið sjáið eftir þessu þá mun ég fyrirgefa ykkur þetta og gefa ykkur tækifæri til þess að bæta fyrir það sem þið gerðuð. Ég á nefnilega líka við ykkur brýnt erindi.“

„Mér og mínu pínulitla fólki er mikill vandi á höndum og nú þarf ég á ykkar aðstoð að halda.“

„Hvað getum við gert?“ spurði Embla.

„Á Íslandi eru til fullt af pínulitlu fólki, sem býr flest í óbyggðum. Þannig er mál með vexti að sum þeirra eru í bráðri lífshættu sem þau vita ekki af. Þeirra bíða miklar hörmungar ef ekkert er aðhafst og nú verður að koma þeim til bjargar.“

Gamli maðurinn var mjög hnugginn þegar hann sagði þeim söguna af pínulitla fólkinu sem gæti dáið ef ekkert væri að gert.

„Hvað getum við gert?“ endurtók Adam.

„Þið þurfið að gæta hússins míns og garðsins á meðan ég verð í burtu um óákveðinn tíma og gæta þess að ekkert komi fyrir pínulitla fólkið mitt. Loki og Lýður hlakka mjög mikið til að hitta ykkur aftur, ef þið viljið taka þetta verkefni að ykkur.“

„Á! Það getum við sko gert.“

Gamli maðurinn stóð upp og þakkaði fyrir sig. Því næst rétti hann pabba lyklana að húsinu og gekk að svo mæltu út í vel útbúinn jeppa sem stóð í innkeyrslunni. Hann var um það bil að leggja af  af stað í hættulegan björgunarleiðangur inn í óbyggðir Íslands. Hann fór ekki einsamall heldur hafði hann fjóra galvaska pínulitla skikkjuklædda karla með sér, einhverskonar sérsveitarmenn pínulitla fólksins. Þeir voru búnir að koma sér vel fyrir í hanskahólfinu á jeppanum. Til að vera sérsveitamaður pínulitla fólksins þurfti sérstaka hæfileika; sumir gátu séð þótt þeir væru með augun lokuð, aðrir áttu auðvelt með að eiga samskipti við dýrin en allir voru þeir sérstaklega fráir á fæti, gátu hlaupið hratt og hoppað hátt. Þetta hafði gamli maðurinn sagt þeim.
Þau veifuðu gamla manninum og sérsveitarmönnunum í kveðjuskyni þegar hann ók á brott, einbeittur á svip.

Fagridalur


3. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Börnin áttu erfitt með að sofna þetta kvöld. Pínulitla fólkið átti hug þeirra allan. Emblu langaði að sýna þeim dúkkuhúsið sitt og Adam langaði að fara með þau í bátsferð á trébátnum sínum. Margvíslegar hugsanir og hugmyndir þeyttust um í kollinum á þeim en að lokum tókst systkinunum að festa svefn.

Daginn eftir vöknuðu systkinin snemma morguns. Mamma og pabbi voru enn sofandi. Þau læddust út að húsi gamla mannsins og pínulitla fólksins. Adam barði að dyrum en enginn kom til dyra. Adam bankaði enn fastar en það bar heldur engan árangur. Þau biðu enn um stund og voru orðin svolítið óþolinmóð. Þau var farið að hlakka svo til að fá að hitta Loka og Lýð aftur. Adam reyndi því næst að taka í hurðarhúninn og komst að raun um að dyrnar voru ólæstar. Adam og Embla gægðust varlega innfyrir en sáu engan á ferli.

„Hvar ætli gamli maðurinn sé?“ hvíslaði Adam.

„Veit ekki, örugglega sofandi?“ svaraði Embla hljóðlega.

„Eigum við að fara út í garðinn?“ spurði Adam.

Embla kinkaði kolli og svo læddust systkinin inn í gegnum stofuna og út á veröndina og svipuðust um. Núna voru þau aftur komin í ævintýraveröldina sem þau langaði að kynnast betur.

„Sælt veri fólkið! Svo þið eruð komin aftur.“

Adam og Embla litu í skyndi niður fyrir fætur sér í átt að röddinni sem hafði ávarpaði þau og sáu sér til furðu að Loki og Lýður stóðu rétt við fætur þeirra.

„Hæ, hæ, viljið þið koma að leika?“ spurði Adam.

„Já, já, svaraði Lýður, hvað hafið þið í huga?“

„Við ætlum að sýna ykkur svolítið. Viljið þið koma með okkur í svolítið ferðalag?“

„Já, já,“ svaraði Lýður spenntur og leit á Loka. „Loksins er eitthvað spennandi að gerast. Komum!“
Að svo mæltu beygði Adam sig rólega niður og bauð Loka og Lýð að setjast í lófa sér. Hann lyfti þeim varlega upp og síðan læddust þau að útidyrunum, opnuðu þær hljóðlega og fóru út, lokuðu síðan á eftir sér og héldu heim á leið. Ekkert bólaði á mömmu og pabba og þess vegna fóru þau rakleiðis inn í herbergið sitt. Nú var komið að þeim Loka og Lýð að verða spenntir og undrandi yfir öllu því sem fyrir augu bar. Þarna var ótrúlega margt spennandi að sjá. Vááá! Þarna voru hlutir sem þeir höfðu þeir aldrei séð og mörg leikföngin voru einsog sniðin fyrir þá. Allt var svo lítið og smátt, alveg einsog þeir.

Dukkuhus 

„Megum við skoða dótið ykkar,“ spurði Lýður og spennan leyndi sér ekki.

„Já, alveg sjálfsagt,“ svaraði Embla og sýndi þeim lítinn leikfangahest.
Loki og Lýður mátuðu hvor sinn kúrekahattinn og fóru báðir á bak.

„Af stað,“ gólaði Lýður, en ekkert gerðist.

„Þetta er nú lítið spennandi,“ sagði Loki.

Þá tók Adam hestinn og leyfði þeim að kynnast alvöru útreiðatúr með því að hreyfa sjálfur hestinn.

„Íííhhaaa,“ hrópaði Lýður á meðan hann sveiflaði kúrekahattinum. Meira! Meira!

„Aaaahhh...   Hleypið mér af, ég get ekki meir,“ hrópaði Loki skelkaður með lokuð augun og ríghélt sér í taumana á leikfangahestinum.

Embla hjálpaði þá Loka af baki og lagði hann á sófann í dúkkuhúsinu sínu.

„Úff...   Þetta er nú meiri ótemjan,“ sagði Loki alveg uppgefinn. „Usss...   Það er einhver sofandi í rúminu þarna,“ sagði Loki svolítið hissa þegar hann horfði í kringum sig í þessu ævintýralega dúkkuhúsi.

„Ha... nei...   Þetta er bara dúkkan mín,“ sagði Embla, „hún er ekki lifandi einsog þið.“

„Er hún þá dáin?“ spurði Loki nokkuð smeykur.

„Nei, hún er bara leikfang. Sjáðu!“

Þá tók Embla upp dúkkuna og skrúfaði af henni höfuðið.

„Ahhah...“

Í sömu andrá leið yfir Loka.

„Loki! Loki! Er ekki allt í lagi? Fáðu þér vatnssopa,“ sagði Embla áhyggjufull.

Loki opnaði augun og var greinilega mjög ringlaður.

„Hvar er ég?“

„Þú ert í heimsókn heima hjá okkur,“ sagði Embla í móðurlegum tón og rétti honum lítinn leikfangabolla fullan af vatni. Fáðu þér vatnssopa og þá mun þér líða betur.

Á meðan á öllu þessu stóð voru Adam og Lýður svo uppteknir í kúrekaleik að þeir tóku ekki eftir neinu.

„Förum út í garð. Mig langar að sýna ykkur bátinn minn,“ sagði Adam.

Nýju vinunum leist vel á hugmyndina og Loki gat einnig fengið sér ferskt loft eftir skelfinguna  að sjá hauslausu dúkkuna. Nú var spennandi bátsferð framundan, en hann var ekki alveg viss um hvort hann ætti að þora.

Adam lagði bátinn á pollinn og sagði hátt og skýrt:

„Allir um borð!“

Lýður lét ekki segja sér það tvisvar og stökk um borð.

„Ég verð bara hérna,“ sagði Loki smeykur og var greinilega búinn að fá nóg af ævintýrum þennan morguninn.

Adam og Lýður voru ekki á sama máli og gátu eflaust leikið sér endalaust með bátinn. Það var svo rosalega gaman að sigla um síkin sem Adam hafði útbúið. Embla og Loki létu sér nægja að horfa á.

„Hvað er í gangi,“ heyrðist skyndilega í fjarska.

Adam og Embla litu við og sáu gamla manninn koma á harða spretti í áttina til þeirra.

„Váá...   hvað hann getur hlaupið hratt miðað við að hann er alveg eldgamall,“ sagði Adam dálítið hissa við Emblu, en kom um leið auga á svipinn á gamla manninum.

Þau urðu dálítið óttaslegin. Nú rann upp fyrir þeim að þau höfðu í raun og veru farið inn í hús gamla mannsins og numið Loka og Lýð á brott í leyfisleysi.

„Þið hafi valdið mér miklu vonbrigðum,“ sagði sá gamli móður og másandi.

„Lýður komdu þér af bátnum og Loki komdu hingað undireins, þið eigið að vita betur og fara ekki svona út fyrir garðinn.“

Loki hraðaði sér skömmustulega til gamla mannsins meðan Adam stýrði bátnum rólega í land með Lýð innanborðs. Sá gamli tók síðan upp litlu vinina sína og setti þá í jakkavasann þungur á brún.

„Ykkur er greinilega ekki treystandi fyrir þessu mikilvæga leyndarmáli,“ sagði sá gamli við systkinin og gekk rösklega í átt að húsinu sínu.

Adam og Emblu leið ekki vel.

„Við vorum bara að leika við þá!“ kallaði Embla hálfskælandi á eftir honum.
Adam reyndi að hugga systur sína.

„Af hverju þurftum við að klúðra þessu? Það var svo gaman að leika við þá en nú fáum við aldrei að leika við þá aftur. Ég vildi að við hefðum ekki gert þetta. Þau voru virkilega vonsvikin. Nú fáum við aldrei að hitta Loka og Lýð og hitt fólkið sem við áttum að fá að kynnast.“

Systkinin gengu niðurlút heim til sín og inn í herbergið sitt. Mamma og pabbi voru ekki enn komin á fætur. Þau horfðu sorgmædd á öll leikföngin sín en vildu miklu freka leika við Loka og Lýð. Þeim fannst vænt um öll leikföngin sín en voru alveg tilbúin að skipta á þeim öllum, bara ef þau gætu fengið hitta pínulitla fólkið aftur.


2. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Morguninn eftir vöknuðu Adam og Embla við ilminn af nýbökuðu brauði. Þannig var alltaf svo gaman að vakna. Þau gengu inn í eldhúsið með stírurnar í augunum og biðu spennt eftir góðgætinu sem mamma var að útbúa.

„Fáið ykkur sæti og gæðið ykkur á nýbökuðu brauði elskurnar mínar,“ sagði mamma. „Við förum síðan í heimsókn til gamla mannsins.“

„Æ-nei! Við viljum ekki fara þangað,“ svaraði Adam fyrir hönd systkinanna.

„Svona, svona, við pabbi förum með ykkur. Við viljum auðvitað fá skýringu gamla mannsins á atburðum gærdagsins,“ svaraði mamma um hæl.

Eftir góða morgunstund heima fyrir var ferðinni heitið til þess gamla. Foreldrarnir leiddu börnin sín en þeim var engan veginn rótt. Pabbi hringdi dyrabjöllunni og eftir dágóða stund voru dyrnar opnaðar mjög rólega og þarna stóð gamli maðurinn.

„Jæja, svo þið eruð komin, það er nú gott,“ sagði hann vingjarnlega. „Ég var einmitt að laga kaffi og útbúa íste handa börnunum í eldhúsinu. Gjörið svo vel að fylgja mér.“

100_4982fiskabur2

Fjölskyldan gerði sig líklega að fylgja þeim gamla inn í húsið en þau urðu furðu lostin um leið og inn var komið því þar blasti við óvænt sjón. Þarna var til dæmis veggur, þakinn bókahillum, en einnig mörgum litlum stigum, litlum hurðum og lítil hengibrú lá frá bókahillunum yfir í tré sem virtist vaxa upp úr miðju stofugólfinu. Í trénu voru bandspottar út um allt. Þau komu einnig auga á lítið hús í laufþykkninu og á nokkrum stöðum á trénu voru einskonar sólpallar með pínulitlum haganlega smíðuðum stólum og á trjátoppnum mátti sjá litla útsýnistunnu. Borðstofuborðið og  sumir stólarnir voru með litla hringstiga utan um fæturna. Á veggjunum var fjöldinn allur af litlum götum og við götin voru litlar svalir. Sumar svalirnar voru alveg upp við loftið og á sumum þeirra voru rennibrautir sem lágu á næstu svalir fyrir neðan. Einnig var þarna lítil leikfangalest og fínlegir lestarteinar virtust liggja um allt húsið. Þeir lágu gegnum göt á veggjum og á einum stað yfir opið fiskabúr. Í fiskabúrinu var mikill gróður og litlir fallegir torfufiskar.

100_4976fiskabur

Ofan á vatnsyfirborðinu var lítil bryggja og við bryggjuna lá lítill árabátur. Þau virtu þetta allt fyrir sér með spurnarsvip.

Á meðan hellti gamli maðurinn ístei í stóra könnu og rétti börnunum síðan tvö glös og hellti síðan í þau úr könnunni.

„Ég ætla fyrst að fá að ræða við foreldra ykkar. Á meðan getið þið farið út á veröndina og drukkið þetta íste í sólinni. Ég bið ykkur samt um, sama hvað gerist, að stíga alls ekki út á grasið í garðinum,“ sagði sá gamli.

Þeim fannst það skrýtið og dularfullt af hverju þau mættu ekki stíga á grasið því oftast nær var það nú í lagi. Þau gengu síðan á eftir gamla manninum út á veröndina þar sem hann lagði könnuna á lítið borð rétt við garðröndina. Þarna gátu þau fengið sér sæti og virt fyrir sér garðinn.

„Vááá! Mikið er þetta fallegur garður,“ sagði Embla og horfði stóreyg í kringum sig.

„Það finnst mér líka en við verðum víst að láta okkur nægja að skoða hann héðan,“ sagði Adam. Ekki þori ég að óhlýðnast gamla manninum.

Allt í einu heyrðist: PLÚBBS! Eitthvað hafði dottið í könnuna með skvampi og nú valt hún um koll og innihaldið gusaðist út á grasflötina við veröndina og svo sáu þau einhverja veru skjótast eldsnöggt inn í næsta runna. Þau trúðu varla sínum eigin eyrum því þau heyrðu ekki betur en að einhver væri að muldra eitthvað óskiljanlegt úr sömu átt. Þau ráku upp óp:

Iste

„MAMMA! PABBI!“ hrópuðu þau óðamála um leið og þau hlupu inn í húsið.

„Við sáum einhverja pöddu sem talaði!“ sagði Adam móður.

„Já, og hún hljóp á tveim fótum einsog manneskja!“ sagði Embla.

„Hvaða vitleysa er í ykkur krakkar,“ svaraði pabbi og hló við.

„Ykkur hlýtur að hafa missést. Þið eruð nú mjög hugmyndarík,“ sagði mamma góðlátlega og horfði kímin á gamla manninn.

„Þetta sem þið sáuð í garðinum rétt í þessu er einmitt hluti af skýringunni sem ég hét í gær að segja ykkur frá, sagði sá gamli. Þessi „padda“ sem þið sáuð hérna áðan er í raun pínulítil manneskja, ein af mörgum sem búa hérna hjá mér. Ég er búinn að fylgjast með þeim síðan ég byggði þetta hús og vitneskjan um þau hefur verið leyndarmál sem ég hef þurft að varðveita mjög vel í öll þessi ár til þess að vernda þessa litlu vini mína. Þegar ég sá svo Emblu koma yfir garðvegginn í gær, þá varð ég skelfingu lostinn því  hún hafði ekki hugmynd um pínulitla fólkið sem var í mikilli lífshættu án þess að hún vissi. Þess vegna brá ég á það ráð í öllu fátinu að grípa til teygjubyssunnar. Mér þykir mjög leitt að hafa meitt þig, Embla.

Öll fjölskyldan starði á þann gamla einsog hann væri búinn að missa vitið.

„Ha! Hvað ertu að segja,“ sagði pabbi, „áttu við að pínulítið fólk búi í garðinum hjá þér? „Áttu ekki við að það sé dvergar?“

„Eða kannski frekar álfar?“ Sagði Adam.

„Nei, nei! Þetta er pínulítið fólk,“ sagði sá gamli, „og þetta litla fólk er alveg einsog við mannfólkið, bara miklu minna. Hér á Íslandi hefur það búið lengur en mannfólkið sjálft, flest þeirra býr fjarri mannabyggðum en það sem er í garðinum hjá mér bjó hérna löngu á undan mér. Þegar mannfólkið flutti hingað byggðist allt svo hratt að pínulitla fólkið hafði engan tíma til að forða sér. Ég kynntist þeim og hef gætt þeirra allt frá því ég byggði þetta hús og hef varðveitt þetta leyndarmál og að þeirra ósk ekki sagt neinum frá því fyrr en ykkur nú.“

„En af hverju ertu að segja okkur frá þessu?“ spurði pabbi.

„Nú, ég sá strax að þið eruð indælar manneskjur og svo varð ég auðvitað ég útskýra hegðun mína í gær fyrir ykkur öllum fjórum. Ég er orðinn gamall maður og satt að segja finnst mér gott að geta loksins deilt þessu leyndarmáli með þeim sem mér finnst að ég geti treyst.“

„Fáum við að sjá þau aftur,“ spurði Embla.

„Já, þegar þið eruð tilbúin og þegar pínulitla fólkið er tilbúið að hitta ykkur,“ sagði sá gamli. „Þið Adam og Embla getið farið út á verönd og athugað hvort þau komi og tali við ykkur. Mér þykir ekki ólíklegt að þau séu einnig talsvert spennt fyrir að kynnast ykkur. Miðað við frásögn ykkar áðan, þegar eitthvað datt í könnuna, þá bendir ýmislegt til að þetta hafi verið annað hvort hann Loki eða þá hann Lýður. Þeir eru alltaf eitthvað að bralla, ef ég þekki þá rétt.“

Adam og Embla voru nú orðin verulega spennt og gengu hægum skrefum út á veröndina og litu vandlega í kringum sig. Pabbi og mamma fylgdust með þeim í gegnum gluggann, alveg jafn spennt. Adam og Embla beygðu sig í hnjánum og horfðu gaumgæfilega í allar áttir. Í fyrstu komu þau ekki auga á neitt kvikt. Ekkert pínulítið fólk virtist í augsýn . Allt í einu sáu þau hreyfingu í einum runnanum skammt frá. Blaut, pínulítil vera í vínrauðri ullarpeysu, brúnum sokkabuxum, bundnum leðurskóm og með prjónahúfu sem náði ekki að hylja alla ljósu lokkana, gekk ákveðin og örugglega til systkinanna. Þau sáu ekki betur en að veran væri í talsverðu uppnámi.

„Góðan og blessaðan daginn bæði tvö, Lýður heiti ég og ég líð ekki svona framkomu! Ég ætlaði að fá mér smá sundsprett í lauginni hjá ykkur en vatnið var bara ískalt! Ég hefði geta drukknað!“

„Þú átt við,  í ísteinu okkar,“ sagði Adam. „Það á nú eiginlega ekki að synda í því,  heldur drekka það og þetta var drykkjarkanna sem þú hélst að væri sundlaug.“

„Já, það hlaut að vera, þú segir nokkuð,“ sagði pínulitla veran sem kallaði sig Lýð. „Ég fann nefnilega bara ansi gott bragð þegar ég var alveg að drukkna. Leyfist mér að kynna vin minn Loka. Loki! kallaði Lýður. Okkur er alveg óhætt. Þessi börn ætluðu ekki að drekkja okkur. Ég datt víst bara í drykkinn hjá þeim.“

Í sömu andrá kom önnur pínulítil vera út úr runnanum í mosagrænni ullarpeysu, dökkgrænum sokkabuxum, skinnskóm og með dökkt, úfið hár.

„Sælt veri fólkið! Loki heiti ég og við Lýður erum hinir mestu mátar. Ég bið ykkur afsaka að ég faldi mig á meðan ég var að fylgjast með ykkur. Ég er bara ekki eins opinskár og Lýður.“

„Það er gaman að kynnast ykkur, Loki og Lýður. Ég heiti Adam og þetta er hún Embla systir mín.“

Nú gekk sá gamli út á veröndina til þeirra.

„Jæja, ég sé að þið hafið hitt Loka og Lýð. Það er nú gott, í bili. Á morgun kynna kannski Loki og Lýður ykkur fyrir öllu hinu pínulitla fólkinu. Þið verðið að skilja að það er talsverð nýlunda hjá þeim að að kynnast ykkur því þau hafa einungis umgengist mig í öll þessi ár.“

„Hinu? Hversu mörg eru þau eiginlega?“ spurðu systkinin.

„Við erum alveg milljóntrilljón,“ sagði Lýður

„Nei, kannski ekki alveg svo mörg, ætli hundrað sé ekki aðeins nær lagi,“ sagði Loki.

„Gamli maðurinn ítrekaði nú að pínulitla fólkið þyrfti að venjast þeirri staðreynd að fleiri en hann væru á ferli í húsinu og á veröndinni hans. Þau væru bara vön honum og þyrftu sitt svigrúm til þess að hefja ný kynni.“

Eftir að hafa spjallað dágóða stund við gamla manninn var ákveðið að þau kæmu aftur í heimsókn daginn eftir. Fjölskyldan kvaddi gamla manninn og þakkaði fyrir sig og hélt síðan heim.

Adam og Embla gátu ekki hætt að tala um það sem fyrir augu og eyru hafði borið og kynni sín af þessum skrýtnu furðuverum, þeim Lýð og Loka. Þeir höfðu komið þeim svo skemmtilega fyrir sjónir. Þeim fannst þau ekki geta beðið eftir að morgundagurinn rynni upp og þau fengju að hitta þá aftur og hitta jafnvel fleira pínulítið fólk. Þetta hafði aldeilis verið viðburðaríkur dagur.


1. kafli: Smá-saga af smáu fólki

forsida

Einu sinni var lítil fjölskylda, enginn vissi nákvæmlega hvenær eða hvar, en eitt var þó víst, það var á eyju í Norður-Atlantshafi sem heitir Ísland.

Það var fallegt vor og sólin skein. Gamall maður stóð á verönd sinni og fylgdist með ungum hjónum sem voru að flytja í litla húsið í næsta nágrenni ásamt tveimur ungum börnum. Allir voru glaðir í bragði og hjálpuðust að við að bera inn búslóðina.

Húsið sem glaðlega fjölskyldan var að flytja inn í var smátt í sniðum miðað við stórt og tignarlegt hús gamla mannsins. Húsið hans stóð efst á hæðinni og minnti á kastala þar sem það reis upp yfir lágreistu húsunum í nágrenninu.

DSC00360

Þrátt fyrir að sá gamli byggi í stærsta og veglegasta húsinu var samt eitthvað leyndardómsfullt við þetta hús. Þar bjó gamli maðurinn einsamall og þegar einhverjir áttu við hann erindi, bauð hann þeim aldrei inn. Þó kom fyrir að hann bauð upp á kaffisopa á veröndinni fyrir framan húsið.

Bakgarðurinn var gríðarlega stór og umkringdur hárri girðingu sem minnti á virkisvegg. Hávaxin trén teygðu sig langt upp fyrir girðinguna og voru greinilega mjög gömul því þau voru með hæstu trjám á Íslandi.

Litla húsið við hliðina hafði staðið autt svo árum skipti. Þrátt fyrir smæðina var samt eitthvað svo fallegt við það. Þar sungu fuglarnir í garðinum í sífellu og sólin virtist skína meira á það en nokkurt annað hús.

Fjölskyldan var brátt búin að koma sér þokkalega fyrir í litla húsinu sínu. Pabbi og mamma lögðu sig fram um að lagfæra og fegra nýja heimilið með aðstoð barnanna.

Adam var 10 ára en Embla var 8 ára. Þau voru mjög góðir vinir þrátt fyrir að þau væru systkini.
Þau voru öll önnum kafin við að breyta og bæta nýja heimilið en  það voru mörg verk sem pabbi og mamma þurftu að leggja lokahönd á meðan börnin léku sér. Adam kubbaði mikið og var oft í bílaleik með litlu bílana sína. Hann átti einnig fallegan trébát sem honum fannst gaman að leika sér með. Stundum gróf hann holur í garðinum og fyllti þær af vatni sem hann lét síðan bátinn sigla á og hann bjó til vegi fyrir bílana sína.

Embla átti nokkrar dúkkur og dúkkuhús sem hún og pabbi hennar byggðu saman. Dúkkurnar fengu stundum að fara í skemmtiferð í fallega trébátnum hans Adams. Systkinin höfðu líka mjög gaman að alls konar boltaleikjum svo sem fótbolta, handbolta, körfubolta, hornabolta og brennibolta.

Dag einn þegar þau voru að sparka bolta vildi þannig til að Adam sparkaði boltanum svo kröftuglega að hann sveif yfir háa garðvegginn hjá gamla manninum. Nú voru góð ráð dýr. Þeim stóð dálítil ógn af þessu gamla, dularfulla húsi og eina íbúa þess sem þau sáu stundum tilsýndar. Þess vegna  þorðu þau ekki að biðja um leyfi til að fara inn í garðinn til þess að sækja boltann svo þau ákváðu þess í stað að klifra yfir girðinguna.

Embla klifraði upp á axlirnar á Adam. Hún gægðist í fyrstu yfir veggbrúnina og svipaðist um. Hún leit forvitin í kringum sig því garðurinn hafði hingað til verið henni hulinn. Hún hífði sig síðan upp á garðvegginn og var í þann mund að láta sig síga niður hinumegin þegar hún fann skyndilega sársauka í bakinu. Hún rak upp óp og ætlaði að flýta sér að snúa til baka sömu leið en fann í sömu mund fyrir sársauka í lærinu. Hún hraðaði sér hrædd aftur niður til Adams.

Hvað var eiginlegu um að vera? Þau litu dauðhrædd í kringum sig. Þau ráku upp stór augu þegar þau sá hvar gamli maðurinn stóð við opinn glugga á stóra húsinu. Þau sáu ekki betur en að hann væri með teygjubyssu í höndunum. Börnin trúðu varla sínum eigin augum og hlupu heim til sín eins hratt og fæturnir gátu borið þau. Háskælandi og lafhrædd komu þau vaðandi inn um dyrnar heima hjá sér.

„Mamma! Pabbi! Gamli karlinn í stóra húsinu var á skjóta okkur, öskruðu Adam og Embla í kór.“

Mamma og pabbi hlustuðu á söguna og trúðu vart sínum eigin eyrum og skoðuðu Emblu í krók og kring. Hún var dálítið aum eftir teygjuskotin tvö, en þó ekki stórslösuð.

„Gamli maðurinn er búinn að missa vitið. Ég skal sko sýna honum í tvo heimana,“ sagði pabbi bálreiður á svip. Svo rauk hann í átt að útidyrunum en á sama augnabliki var barið að dyrum og pabbi þreif æstur upp dyrnar.

Þau rak í rogastans! Þarna stóð gamli maðurinn sem skömmu áður hafði verið að skjóta á þau með teygjubyssu. Þau sáu ekki betur en að hann væri dálítið leiður á svipinn þar sem hann stóð í gættinni með boltann þeirra í fanginu. Börnin földu sig á bak við mömmu sína.

Áður en nokkur gat komið upp orði, sagði gamli maðurinn:

„Ég er hingað kominn til að biðja börnin afsökunar. Ég átti auðvitað ekki að skjóta á þau með teygjubyssunni. Nú langar mig að bjóða ykkur í kaffi til mín á morgun. Ég vil gjarnan útskýra hegðun mína ef þið vilduð vera svo væn að þiggja boðið.“

Pabbi og mamma litu hvort á annað og voru dálítið ráðvillt á svipinn í fyrstu. Síðan kinkuðu þau kolli hvort til annars og pabbi svaraði dálítið hugsi á svipinn:

„Allt í lagi, við komum.“

Emblu og Adam var ekki alveg rótt við það svar.

 

Sigþór Björgvinsson, (Barcelona).


Erum við öll krimmar?

STEF vill rukka hundrað krónu gjald á mánuðu. Sjá nánar frétt í hlekknum:
http://www.visir.is/article/2010550856773

Hvers þarf hinn heiðarlegi borgari að gjalda; búðið að stimpla alla glæpamenn fyrirfram.  Ef við höldum okkur við svipaðan þankagang vil ég setja alla karlmenn í fangelsi – þar sem þeir allir hafi burði til að geta nauðgað, kannski ekki alveg fimm ára fangelsi, bara svona nokkra daga; kannski viku eða tvær. Þannig getum við verið viss um að allir þeir sem hafa, eða munu nauðga hljóti refsingu. Enginn mun sleppa! Og fyrir þá sem eru saklausir hljóta að finna huggun í því að þetta eru nú bara nokkrir dagar.

Eins og marg oft hefur verið sagt: saklaus uns sekt sé sönnuð (eða eins og ég vil hafa það: saklaus uns glæp hefur framið) þá er ekki eðlilegt að rukka alla fyrir stefgjöld aðeins á þeim forsendum að þeir greiði fyrir aðgang að Internetinu.

Í bókinni The Black Swan segir að til eru tvennskonar störf: mæld- og ómæld-störf. Mæld störf eru bifvélavirk, læknir og vændiskona; þau geta eingöngu sinnt ákveðnum fjölda viðskiptavina á klukkustund og fer greiðslan að miklu leyti eftir því – sem sagt tímakaup. Svo eru það ómæld störf til dæmis rithöfundundar og tónlistamenn; það tekur alltaf ákveðinn tíma að skrifa bók, semja lag eða hljóðsetja plötu. En síðan þegar vinnunni er lokið tekur við einkennilega atburðarrás. Platan eða bókin getur selst lítið, mikið eða ekkert. Lady Gaga selur vel og hún þénar vel, á meðan er tónlistarmenn sem hafa jafnvel mun meiri hæfileika á tónlistarsviðinu og lögðu meiri vinnu í plötuna sína fá kannski rétt fyrir kostnaði. Sem sagt í tónlistarheiminum er fullt af peningum en hann dreifist ójafnt og alls ekki eftir vinnu eða hæfileikum heldur eftir markaðsöflunum – eða áróðri.

Tónlistarunnendur gera sér grein fyrir þessu, þeim finnst oft blóðugt að styrkja milljónamæringa í sinna fjöldaframleiðslu og fá einnig færi á að kynnast þeim nýju og hæfileikaríkum tónlistmönnum sem til eru. Þannig réttlæta þeir glæpinn.

Lausnin á ólöglegu niðurhali er réttlæti; góðir tónlistamenn fái sanngjörn laun. Skiptingin deilist sanngjarnt milli listamanna en þann mismun á ekki að sækja í vasa netverja.

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík.


Tímaþjófur er fjöldamorðingi

Það sem er svo hræðilegt við morð er að einstaklingur deyr fyrr en eðlilegt er. Til dæmis fórnarlamb sem er myrt 40 ára gamalt er rænt næstu 40 árum á ævinni (ef við gefum okkur að væntur lífaldur sé 80 ár). Ástvinir eru rændir góðum stundum með viðkomandi, samfélagið er rænt vinnuframlagi hans o.s.frv.  Sem sagt það slæma við morð, fyrir utan að sjálfsögðu mannvonskuna sjálfa, er sá tími er rændur frá einstaklingnum.

En til að ræna tíma þarf ekki endilega að myrða manneskju. Leiðinlegar kvikmyndir af rænt ómældum tíma af mannkyninu. Það er til leikur á Facebook sem heitir Farmville sem er með 60 milljón notendur, 22 milljónir spila að minnsta kosti einu sinni leikinn á hverjum degi (tölur frá sl. febrúar, líklega bara bætt í síðan þá). Ef þær 22 milljónir verja (eða eyða) hálfri klukkustund á hverjum degi eru það 11 milljón klukkustundir á dag.

Ef við höldum okkur við væntan meðalaldur upp á 80 ár, sem er vel í lagt en við skulum vera bjartsýn, þá spannar mannsævin rúmlega 700.000 klukkustundir.

Ég hef ekki spilað Farmville og get ekki dæmt um hvort um hreina tímaeyðslu sé að ræða eða mikla skemmtun, og aukin samskipti milli vina.  En ef um tímaþjóf sé að ræða þá: er eingöngu Framville sem tímaþjófur að ræna (myrða) um það bil 16 einstaklinga heila mannsævinni á degi hverjum.

Lifið heil.

Sigþór Björgvinsson.


Óvart til Frakklands

Fyrir nákvæmlega ári síðan var ferðinni heitið til Marmaris á Tyrklandi. Ég og vinur minn ætluðum að fara svo sparlega í þessa ferð höfðum skipulagt þetta aðeins öðruvísi. Ferðaáætlunin var þannig: fljúgum til London Heathrow – lest til London Standsted – þaðan flogið til Rhodos á Grikklandi – og loks siglt yfir frá Rhodos á Grikklandi yfir til Marmaris í Tyrklandi. Þetta skipulag heppnaðist ekki betur en svo að þegar við héldum að við vorum að lenda í Rhodos í Grikklandi tókum við eftir að flugvélin var ekki að lækka flugið á eyju. Ég vatt mér að ókunnum sessunauti mínum og spurði vandræðalega:

Ég: “Uhh… where are we lending?”

Sessunauturinn: “Rodez.”

Ég: “Where is Rodez?”

Sessunauturinn: “That´s in France.”

 

Ég: “Oh boy …”

 

Við tveir vorum komnir til smábæjar í Frakklandi á meðan hinir sem höfðu sem við ætluðum að verja fríinu með voru í Tyrklandi. Þessi óvæntu hlutskipti hugðust okkur ekki, þó að þetta væri mjög fallegur bær og henti mjög vel fyrir fólk í rómantískum hugleiðingum, þá vildum við burt og það sem allra fyrst. Þannig að við fórum strax í að útvega nýja flugmiða þar sem að vera áfram í Frakklandi, var ekki sérlega fýsilegur kostur. Daginn eftir vorum við alveg slakir, þar sem við vorum búnir að útvega miða. Tveimur tímum fyrir flug fórum við í að finna leigubíl, aðeins um tíu mínútna akstur upp á flugvöll, en hvergi var hægt að finna slíka þjónustu og við orðnir nokkuð áhyggjufullir. Við vorum að horfa upp á að missa af fluginu og vera lengur í Frakklandi með tilheyrandi kostnaði. Ég var farinn að stöðva umferð og veifa 50 evru seðli í von um smá skutl, félaginn fór í verslanir og spurði einn verslunareigandann um far á flugvöllinn; hann lokaði versluninni og skutlaði okkur á flugvöllinn....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband