10.11.2010 | 13:12
7. kafli: Smá-saga af smáu fólki
Börnin vöknuðu við píanóspil föður síns, pabbi gleymdi alltaf stað og stund þegar hann sat við gamla píanóið sem pabbi hans hafði átt á undan honum og pabbi hans á undan honum. Pabbi leit hissa á systkinin og á klukkuna til skiptis.
Hvað, bara komin strax á fætur? spurði pabbi. Þið sem fóruð svo seint í háttinn í gær. Fáið ykkur sæti, ég ætla að útbúa morgunmat.
Systkinin horfðu pínu hneyksluð á hvort annað og hristu höfuðið, þau hefðu ekki vaknað svona snemma ef pabbi hefði ekki verið að spila svona hátt á píanóið. Svo snæddu þau fjölrétta morgunverð sem pabbi hafði galdrað fram. Þegar þrímenningarnir höfðu lokið við morgunmatinn og voru að ganga frá heyrðu þau bifreið aka inn í innkeyrsluna. Adam stökk til dyra og sá gamla manninn stíga út úr jeppanum sínum. Adam tók eftir að svipurinn á gamla manninum hafði breyst. Honum sýndist hann sjá nýtt blik í augunum og þegar hann kom auga á systkinin og pabba breiddist einlægt bjart bros yfir andlit hans.
Komið þið sæl og blessuð, sagði sá gamli hressilega og heilsaði pabba með handabandi. Ég er með nokkuð mjög sérstakt meðferðis sem mig langar til að sýna ykkur.
Sá gamli gekk að jeppanum og opnaði skottið. Börnin gægðust inn. Þarna var stór pappakassi en yfir hann hafði verið breitt teppi. Í kassann var búið að skera nokkur ferköntuð göt og einnig rifur sem virkuðu einsog lítil hurð og litlir gluggar.
Jæja, kíkið í kassann!
Börnin voru mjög spennt en pabba virtist takast að halda ró sinni. Adam og Embla lyftu teppinu í sameiningu og kíktu stóreyg niður í kassann. Ja, hérna, þarna blasti við skrýtin sjón en þó kunnugleg. Í kassanum mátti sjá talsverðan fjölda af pínulitlu fólki sem horfði eftirvæntingarfullt upp til þeirra og veifaði til þeirra. Pabbi og sá gamli lyftu síðan kassanum í sameiningu og gengu gætilega með hann í átt að húsi gamla mannsins og börnin fylgdu þeim fast á eftir. Þeir báru kassann á milli sín í gegnum húsið og inn í garðinn og lögðu hann frá sér á grasflötina. Allt pínulitla fólkið í garðinum hraðaði sér nú í áttina að þeim og flýtti sér að safnast í kringum kassann. Eftirvænting og tilhlökkun skein af hverju andliti.
Ég er með smá glaðning handa ykkur, sagði sá gamli hátt og skýrt, íbygginn á svip og lyfti teppinu af kassanum. Síðan opnaði hann litlu hurðina á kassanum og pínulitla fólkið gekk út hvert á fætur öðru.
Nú rann upp mikil hátíðar- og gleðistund þegar allt pínulitla fólkið í garðinum sá allt nýkomna pínulitla fólkið. Mikil fagnaðarlæti brutust út og allar pínulitlu verurnar kepptust við að fallast í faðma og heilsa hvert öðru. Á einu andartaki hafði íbúafjöldinn í garðinum tvöfaldast.
Nú var mikið verk framundan. Allir nýju íbúarnir þurftu ný húsakynni til þess að búa í og systkinin létu ekki sitt eftir liggja að hjálpa til við húsasmíðarnar. Pabbi, Adam og Embla settu upp smíðaverkstæði í bílskúrnum og hófust handa við að smíði lítilla húsa fyrir nýju íbúana. Embla sá um hönnunina og teiknaði falleg tveggja hæða hús með hallandi þaki og svölum. Pabbi sá um að saga og negla saman spýturnar með aðstoð Adams, og Mamma sá að mestu um að mála litlu húsin. Eftir þrotlausa vinnu horfði fjölskyldan á litlu fallegu húsin sem höfðu orðið til á ótrúlega skömmum tíma.
Humm Það er ýmislegt sem vantar enn, sagði pabbi hugsi.
Já, pínulítil húsgögn, sagði Embla.
Já, auðvitað.
Og fjölskyldan fór því næst að búa til pínulítil borð, stóla og rúm og sauma sængur og dúka. Gamli maðurinn fylgdist áhugasamur með gangi mála og mamma heimtaði að heyra ferðasöguna.
Gamli maðurinn kom sér þægilega fyrir og hóf frásögnina:
Ég var búinn að fá ábendingu um að hópur af pínulitlu fólki væri í hættu statt á hálendi Íslands en hafði engar upplýsingar um nákvæma staðsetningu þeirra. Þegar ég og litlu sérsveitarmennirnir mínir fjórir höfðum ekið um hálendið í nokkra daga, án árangurs, voru við orðnir vonlitlir um að finna nokkra sálu. Við höfðum ekið um svarta auðnina, fram og til baka og vorum komnir þar sem jeppinn komst ekki lengra. Við tjölduðum því við fallegan foss þarna inn í miðjum óbyggðum. Í fjarlægð sáum við gæsir sem voru að sýsla við hreiðrin sín. Þá fékk einn litli sérsveitarmaðurinn þá hugmynd að tveir þeirra myndu skella sér á bak einnar grágæsarinnar og leita í lofti að álitlegum stöðum þar mögulegt væri að finna pínulítið fólk. Meðan við héldum áfram að svipast um í næsta nágrenni fóru þeir í þessa hættuför og við biðum í mikilli óvissu eftir þeim. Daginn eftir kom gæsin að heilu og höldnu með þá til baka og viti menn! Í þessari hættuför höfðu þeir komið auga á sannkallaða paradís á jörðu þar sem pínulítið fólk var búið að koma sér vel fyrir. Þangað var ekki hægt að komast akandi og því brugðum við á það ráð að ganga alla leiðina undir leiðsögn sérsveitamannanna. Sú för var bæði hættuleg og erfið. Við gengum í hrauninu en gátum ekki farið stystu leið vegna þess að gil og gjótur leyndust víða á leiðinni. Við þurftum því að gæta þess vel að falla ekki niður í gilin og gjóturnar.
Að lokum komum við inn í fagran dal við fallegt stöðuvatn. Í einni hlíðinni, við lækjarsprænu og fossaflúðir var pínulítið fólk búið að koma sér vel fyrir. Þarna bjó það í berjalynginu og var búð að byggja bogabrú yfir lækjarsprænuna. Þarna var urmull af húsum og þessi byggð líktist smækkaðri mynd af borg. Sum húsanna voru margar hæðir. Þarna voru einnig göng neðanjarðar sem þau ferðuðust um þegar snjórinn var mikill. Ég sagði þeim frá því að þarna væri þeim mikil hætta búin af því að fyrirhugað væri að þetta svæði færi undir vatn. Fyrst vildu þau ekki trúa mér og neituðu að fara, sögðu að þarna hefðu þau alltaf lifað og vildu hvergi annars staðar vera. Einn sérsveitarmaðurinn flutti þeim sannfærandi ræðu þar sem hann útskýrði vel fyrir þeim af hverju þeim væri mikil hætta búin. Hann sagði þeim jafnframt að þeirra biðu ný örugg heimkynni í garðinum við húsið mitt og að þar gætu þau tekið gleði sína á ný með aðstoð ættingja sinna þar og hann fullvissaði þau um að þar væri gott að vera.
Með miklum söknuði þurfti því pínulitla fólkið að yfirgefa heimili sín. Við hjálpuðum þeim að pakka niður því sem þau gátu tekið með sér. Við þurftum auðvitað að skilja eftir margvísleg verðmæti; öll fallegu húsin, brýrnar og ýmsan húsbúnað. Ég gat engan veginn flutt þetta allt saman fótgangandi og það var auðvitað ekki heldur á þeirra færi.
Þau höfðu búið við þetta vatn frá því elstu, minnstu menn mundu. Nú er það skylda okkar að búa eins vel að þeim og kostur er. Þau hafa misst heimili sín og við munum aðstoða þau við að eignast ný heimili svo þau geti tekið gleði sína á ný. Þau verða eflaust afar þakklát fyrir ykkar þátttöku.
Eftir að fjölskyldan hafði hlustað á frásögn gamla mannsins lagði hún lokahönd á pínulitlu húsgögnin og lögðu síðan leið sína til pínulitla fólksins með afraksturinn. Allt litla fólkið var mjög undrandi yfir þessum nýju glæsilegu híbýlum og fallegu húsgögnum. Embla útskýrði fyrir þeim hvernig öllu var fyrir komið og svo hjálpuðust allir við að koma húsunum og innbúinu fyrir á sinn stað. Sum húsin voru sett upp í tré og stígar lagðir upp að þeim, sum voru sett á milli stórra steina í garðinum og önnur voru bara sett beint á grasið. Sú staðsetning hentaði þeim lofthræddu vel eða þeim sem voru myrkfælnir og kusu því ekki að búa í skugganum á milli steinanna. Nýju íbúarnir fundu svo sannarlega að þeir voru velkomnir á þennan nýja, fallega stað. Þeir voru fullvissaðir um að hér biði þeirra gott og öruggt líf.
Á þessari stundu voru því allir glaðir og enginn sorgmæddur yfir því að hafa þurft að flytja. Allir höfðu eignast fjöldann allan af nýjum vinum. Spennandi og gleðilegir tímar voru framundan fyrir gamla manninn, pínulitla fólkið og fjölskyldu Adams og Emblu.
Sigþór Björgvinsson, Reykjavík.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.