6. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Svo liðu dagarnir; Adam, Embla og pínulitla fólkið höfðu skemmt sér rækilega saman við ýmsa iðju en aldrei fóru þau út fyrir garðinn. Systkinin höfðu meðal annars farið með talsvert af leikföngunum sínum til þess að sýna pínulitla fólkinu og leika sér við það. Litla fólkinu þótti sérstaklega gaman að kubbunum. Það var hægt að gera svo margt skemmtilegt úr þeim. Adam sá um að leggja kubbana saman eftir tilsögn litla fólksins. Þau voru búin að kubba saman ótrúlega flottan kastala sem var með stóran turn. Þar kom Lýður sér fyrir og horfði yfir garð pínulitla fólksins og fékk að vera kóngur um stund.

Þau voru líka búin að byggja völundarhús. Lýður fór inn í mitt völundarhúsið og reyndi síðan ákafur að finna réttu leiðina út á meðan Adam og Embla fylgdust spennt með hvort honum tækist að leysa þessa flóknu þraut. Þau hrópuðu af fögnuði þegar honum tókst að lokum að finna leiðina. Svo reyndu margir fleiri við völundarhúsið og höfðu gaman af en reyndar tókst sumum ekki að finna leiðina út. Þá komu þau Embla og Adam þeim til hjálpar og lyftu þeim bara upp úr völundarhúsinu.
Embla kom með dúkkuhúsgögn og gaf litla fólkinu þau og vakti það mikla gleði. Þeim fannst þau rosalega flott. Emblu fannst ánægjulegt að gefa þeim húsgögnin, því pínulitla fólkið hafði mun meiri not fyrir þau en hún sjálf og  það var líka svo gaman að gleðja pínulitla fólkið.
Þau léku sér saman allan daginn og það var svo gaman að þau gleymdu meira að segja stundum að borða. Sem betur fer sáu mamma og pabbi við því og komu alltaf annað slagið með ljúffengar veitingar handa Adam, Emblu og pínulitla fólkinu.

Pínulitla fólkið var sérstaklega hrifið að melónum. Allir hjálpuðust við að borða innan úr melónuhelmingum og þegar þau voru búin að borða innihaldið, gerðu þau lítil göt á melónuhýðið og að því búnu settu systkinin melónuhelmingana á hvolf á grasið. Með þeim hætti  gat pínulitla fólkið farið inn í óvenjuleg melónuhús.

P9213036

Einn daginn datt þeim í hug að kenna pínulitla fólkinu reglurnar í fótbolta og körfubolta. Þau bjuggu til pínulítinn fótboltavöll, með litlum mörkum og litlum áheyrandapöllum og ekki leið á löngu  þar til þau höfðu einnig búið til körfuboltavöll á stéttinni. Svo var haldið íþróttamót hjá pínulitla fólkinu. Fyrst var spilað á nýja, glæsilega fótboltavellinum. Adam sá um dómgæsluna en satt að segja var lítið um góð tilþrif í leiknum því þau höfðu auðvitað aldrei leikið fótbolta áður. Þrátt fyrir það skemmtu þau sér prýðilega. Svo var farið í körfubolta og það var líka mjög gaman. Embla var dómari í leiknum og fylgdist vel með að farið væri eftir öllum leikreglum. Þrátt fyrir að þau hefðu aldrei farið í körfubolta áður voru þau samt ótrúlega góð að hitta í körfuna.

Adam og Embla gleymdu alltaf hvað tímanum leið og mamma og pabbi þurftu alltaf að koma að ná í þau þegar það var kominn háttatími.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband