8.11.2010 | 09:40
5. kafli: Smá-saga af smáu fólki
Adam og Embla hlökkuðu mikið til að fá nú loksins annað tækifæri til að heilsa upp á pínulitla fólkið í húsi gamla mannsins. Eftir að hafa kvatt hann hröðuðu þau sér strax heim að húsinu. Þegar þangað var komið komu þau auga á Loka og Lýð þar sem þeir sátu í litla árabátnum í fiskabúrinu og voru að ræða málin. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar vinirnir hittust á ný. Lýður hoppaði af kæti og fagnaðarlætin voru svo mikil að litla bátnum hvolfdi og Lýður og Loki duttu báðir ofan í fiskabúrið með miklum gusugangi.
Hjálp, hjálp, kölluðu litlu vinirnir.
Adam var snöggur til og rétti þeim vísifingurinn. Fiskarnir í búrinu voru auðvitað búnir að taka eftir þeim og mátti litlu muna að þeir næðu að narta í þá.
Takk fyrir lífsbjörgina, sagði Loki lafmóður og rennandi blautur.
Áður en bátnum hvolfdi vorum við einmitt að ákveða að halda veislu í kvöld og nú er ykkur boðið, sagði Lýður við Adam og Emblu.
Já, það hljómar vel, svaraði Adam.
Þrátt fyrir að pínulitla fólkið hefði miklar áhyggjur af fjarlægum skyldmennum í hættu, vildu þau samt gefa sér tíma til að kynnast Adam og Emblu enda þau höfðu ekki fengið tækifæri til þess fyrr en nú. Þetta var líka prýðileg leið til þess að dreifa huganum og þau voru einnig þakklát fyrir aðstoðina við að gæta hússins og garðsins. Systkinin kvöddu nú að sinni en ákveðið var að hittast seinna um daginn. Pínulitla fólkið þurfti auðvitað einhvern tíma til að undirbúa veisluhöldin.
Þegar leið á daginn var tilhlökkun systkinanna orðin svipuð og fyrir jólin. Þau klæddu sig í betri föt og héldu svo spennt til veislunnar. Þegar þau gengu inn í húsið tóku Loki og Lýður vel á móti þeim.
Velkomin og fylgið mér, sagði Lýður með handahreyfingum einsog hann væri að stýra flugvél til stæðis.
Loki og Lýður gengu í broddi fylkingar út í garð. Þeir notuðu litlar dyr sem lágu út í garð en systkinin notuðu venjulegu dyrnar. Núna máttu þau ganga á grasinu. Spennan leyndi sér ekki og þau fundu fyrir miklum fiðringi í maganum. Þau gengu enn lengra inn í garðinn og í gegnum runna og inn í lítið rjóður. Þar blasti við þeim ótrúleg sjón. Þarna mátti sjá fullt af pínulitlu fólki sem var búið að koma sér fyrir í kringum varðeld eða öllu heldur ósköp venjulegt kerti.
Velkomin, sungu þau öll í kór.
Systkinin voru svo hissa að þau gleymdu næstum því að anda.
Fáið ykkur sæti, sagði gamall pínulítill karl.
Þau tylltu sér í mosann og horfðu vel og vandlega í kringum sig á allt pínulitla fólkið, sem starði á þau á móti einsog þau væru einhvers konar viðundur. Þau horfðu einnig á agnarsmáu húsin sem voru á milli steinanna eða upp í trjánum. Litlir stigar og litlar brýr lágu víða á milli húsanna.
Jæja, hvernig finnst ykkur? spurði gamli pínulitli karlinn.
Systkinin voru svo hissa að þau svöruðu ekki einu sinni. Þau störðu bara á allt í kringum sig. Allt pínulitla fólkið starði á þau til baka og beið spennt eftir svari.
Ha? Já... Þetta er stórmerkilegt, sagði Adam, og Embla kinkaði kolli.
Spurningar í huga systkinanna voru margar. Af hverju voru þau svona lítil? Af hverju vissi enginn af öllu þessu pínulitla fólki? Þurftu þau að fara í skóla eða vinnu? Hvað gerðu þau þegar það snjóaði mikið? Hvað borðuðu þau eiginlega? Varla gátu þau veitt fisk, nema kannski pínulítil síli.
Smakkið á þjóðarréttinum okkar, sagði ein litla veran og benti þeim á skál fulla af ýmiskonar berjum.
Þarna mátti líta bláber, krækiber, sólber og rifsber sem búið var að blanda saman í stórri skál.
Systkinin gæddu sér á þjóðarréttinum.
Berin eru góð á bragðið, sagði Adam, hvað borðið þið annað?
Annað? Við þurfum ekkert annað, sagði ein pínulitla veran.
Er þetta það eina sem þið borðið? spurði Adam.
Nei, nei, við borðum líka kræki- og bláberjarétti og stundum hrúta- og sólberjarétti. Okkur líkar vel að borða berin eintóm og einnig stöppuð, það er mikil fjölbreytni í þessu hjá okkur, sagði stolta pínulitla manneskjan.
Hafið þið þá aldrei smakkað ávexti einsog banana eða epli?
Jú jú, sá gamli hefur stundum gefið okkur ávexti og okkur finnst þeir mjög góðir en bragðið á eplum höfum við aldrei fundið, sagði Lýður.
Adam og Embla horfðu á pínulitla fólkið og voru svolítið hissa á einföldum matarvenjum þeirra.
Finnst ykkur ekki leiðinlegt að vera alltaf bara í garðinum? spurði Adam.
Nei, alls ekki, hér er allt til alls og við þurfum ekkert að fara út fyrir garðinn, svaraði gamla, pínulitla veran fyrir hönd litla fólksins.
Leiðist ykkur aldrei? Langar ykkur ekki að vita hvað er fyrir utan þessa girðingu.
Okkur leiðist aldrei, við höfum hvert annað og forfeður okkar hafa sagt okkur fullt af sögum um hvað hefur gerst í gegnum tíðina fyrir utan þessa girðingu.
Getið þið þá sagt okkur söguna um hvernig þið enduðu í þessu garði? spurði Embla.
Já, ég get sko aldeilis sagt ykkur þá sögu, sagði gamla, pínulitla veran.
Forfeður okkar bjuggu allir á meginlandi Evrópu. Síðan kom að því að atgangur mannanna var orðin svo mikill að hvergi var hægt að vera í friði því stórborgum, hraðbrautum eða verksmiðjum var alltaf að fjölga. Okkar fólk var farið að sárvanta náttúrulegt umhverfi til að vera í svo forfeður okkur urðu að finna lausn á þessum vanda. Eitt vorið tóku þau á það ráð að gerast laumufarþegar á grágæsum þegar þær lögðu af stað til sumardvalar. Ferðin gekk ekki slysalaust fyrir sig. Sumt af okkar fólki datt af baki og aðrir þoldu ekki kuldann í háloftunum. Við hérna erum afkomendur fyrsta hópsins sem lagði af stað í þessa hættuför. Í fyrstu vissum við ekkert um hvort fleira af okkar fólki hefði skilað sér hingað til Íslands. Eftir að við kynntumst gamla manninum aðstoðaði hann okkur við að afla upplýsinga um að við ættum skyldmenni um allt land. Við erum mjög heppin að hafa kynnst þeim gamla sem skaut yfir okkur skjólhúsi á sínum tíma. Nú virðist sagan ætla að endurtaka sig með því að hann er lagður af stað til þess að leggja fjarlægum skyldmennum okkar lið þar sem þau er í hættu stödd því stóra fólkið er farið að taka af þeim náttúruna enn á ný.
Svo fóru fleiri pínulitlar verur að segja frá spennandi ævintýrum og Adam og Embla hlustuðu á frásagnir þeirra. Síðan var röðin komin að þeim að segja frá. Þau sögðu meðal annars frá leikföngunum sínum og skemmtilegu boltaleikjunum sem þau voru alltaf í. Allir skiptust á sögum langt fram eftir kvöldi eða alveg þangað til að þau gátu ekki lengur haldið sér vakandi og sofnuðu hvert á fætur öðru í mjúkum mosanum. Þannig komu mamma og pabbi að þeim og báru þau sofandi heim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.