4. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Lífið gekk áfram sinn vanagang en Adam og Embla höfðu ekki hitt pínulitla fólkið í marga daga, eða alveg síðan þau voru að leika sér í pollinum með bátinn. Systkinin sátu úti í glugga í herberginu sínu og horfðu á stóru virkisveggina og ímynduðu sér hvað Loki, Lýður og allt hitt pínulitla fólkið væri að brasa hinumegin við veggina. Þau langaði að leika meira við þá og líka að hitta allt pínulitla fólkið. Það mun líklega ekki gerast í bráð, sennilega aldrei ræddu börnin í sífellu og rifjuðu enn og aftur upp heimsóknina í dularfulla húsið.

Nú barst kaffiilmur úr eldhúsinu. Börnin kunnu vel við kaffilykt. Ekki vegna þess að þeim fannst kaffi svo gott, heldur vegna þess að það þýddi að mamma og pabbi voru heima í rólegheitum og ekki á leið til vinnu eða neitt svoleiðis.

„Adam! Embla!“ kallaði mamma skyndilega úr eldhúsinu. „Komið þið niður í eldhús. Það er kominn gestur.“

Adam og Embla gengu niður stigann og var nokkuð brugðið þegar þau heyrðu rödd sem þau könnuðust við og sáu að gamli maðurinn sat við eldhúsborðið og var í hrókasamræðum við pabba. Börnin vissu ekki alveg hvernig þau áttu að bregðast við því þau höfðu ekki hitt gamla manninn síðan þau höfðu tekið þá Lýð og Loka með sér í leyfisleysi.

„Heilsið þið gestinum krakkar mínir og fáið ykkur sæti,“ sagði pabbi. „Þetta er nokkuð óvænt, en gesturinn okkar var að enda við að ræða við mig nokkuð sem ykkur gæti þótt spennandi að heyra en fyrst þurfið þið auðvitað að biðjast afsökunar á að hafa farið inn til hans í leyfisleysi um daginn.“
Börnin heilsuðu og horfðu síðan á gamla manninn með eftirvæntingu og sögðu:

„Já, fyrirgefðu. Við munu aldrei óhlýðnast svona aftur. Við bara gleymdum okkur af því að okkur langaði svo að hitta Loka og Lýð aftur.“

„Þið þurfið ávallt að fá mitt leyfi til þess,“ sagði sá gamli, „en fyrst ég sé að þið sjáið eftir þessu þá mun ég fyrirgefa ykkur þetta og gefa ykkur tækifæri til þess að bæta fyrir það sem þið gerðuð. Ég á nefnilega líka við ykkur brýnt erindi.“

„Mér og mínu pínulitla fólki er mikill vandi á höndum og nú þarf ég á ykkar aðstoð að halda.“

„Hvað getum við gert?“ spurði Embla.

„Á Íslandi eru til fullt af pínulitlu fólki, sem býr flest í óbyggðum. Þannig er mál með vexti að sum þeirra eru í bráðri lífshættu sem þau vita ekki af. Þeirra bíða miklar hörmungar ef ekkert er aðhafst og nú verður að koma þeim til bjargar.“

Gamli maðurinn var mjög hnugginn þegar hann sagði þeim söguna af pínulitla fólkinu sem gæti dáið ef ekkert væri að gert.

„Hvað getum við gert?“ endurtók Adam.

„Þið þurfið að gæta hússins míns og garðsins á meðan ég verð í burtu um óákveðinn tíma og gæta þess að ekkert komi fyrir pínulitla fólkið mitt. Loki og Lýður hlakka mjög mikið til að hitta ykkur aftur, ef þið viljið taka þetta verkefni að ykkur.“

„Á! Það getum við sko gert.“

Gamli maðurinn stóð upp og þakkaði fyrir sig. Því næst rétti hann pabba lyklana að húsinu og gekk að svo mæltu út í vel útbúinn jeppa sem stóð í innkeyrslunni. Hann var um það bil að leggja af  af stað í hættulegan björgunarleiðangur inn í óbyggðir Íslands. Hann fór ekki einsamall heldur hafði hann fjóra galvaska pínulitla skikkjuklædda karla með sér, einhverskonar sérsveitarmenn pínulitla fólksins. Þeir voru búnir að koma sér vel fyrir í hanskahólfinu á jeppanum. Til að vera sérsveitamaður pínulitla fólksins þurfti sérstaka hæfileika; sumir gátu séð þótt þeir væru með augun lokuð, aðrir áttu auðvelt með að eiga samskipti við dýrin en allir voru þeir sérstaklega fráir á fæti, gátu hlaupið hratt og hoppað hátt. Þetta hafði gamli maðurinn sagt þeim.
Þau veifuðu gamla manninum og sérsveitarmönnunum í kveðjuskyni þegar hann ók á brott, einbeittur á svip.

Fagridalur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband