6.11.2010 | 11:35
3. kafli: Smá-saga af smáu fólki
Börnin áttu erfitt með að sofna þetta kvöld. Pínulitla fólkið átti hug þeirra allan. Emblu langaði að sýna þeim dúkkuhúsið sitt og Adam langaði að fara með þau í bátsferð á trébátnum sínum. Margvíslegar hugsanir og hugmyndir þeyttust um í kollinum á þeim en að lokum tókst systkinunum að festa svefn.
Daginn eftir vöknuðu systkinin snemma morguns. Mamma og pabbi voru enn sofandi. Þau læddust út að húsi gamla mannsins og pínulitla fólksins. Adam barði að dyrum en enginn kom til dyra. Adam bankaði enn fastar en það bar heldur engan árangur. Þau biðu enn um stund og voru orðin svolítið óþolinmóð. Þau var farið að hlakka svo til að fá að hitta Loka og Lýð aftur. Adam reyndi því næst að taka í hurðarhúninn og komst að raun um að dyrnar voru ólæstar. Adam og Embla gægðust varlega innfyrir en sáu engan á ferli.
Hvar ætli gamli maðurinn sé? hvíslaði Adam.
Veit ekki, örugglega sofandi? svaraði Embla hljóðlega.
Eigum við að fara út í garðinn? spurði Adam.
Embla kinkaði kolli og svo læddust systkinin inn í gegnum stofuna og út á veröndina og svipuðust um. Núna voru þau aftur komin í ævintýraveröldina sem þau langaði að kynnast betur.
Sælt veri fólkið! Svo þið eruð komin aftur.
Adam og Embla litu í skyndi niður fyrir fætur sér í átt að röddinni sem hafði ávarpaði þau og sáu sér til furðu að Loki og Lýður stóðu rétt við fætur þeirra.
Hæ, hæ, viljið þið koma að leika? spurði Adam.
Já, já, svaraði Lýður, hvað hafið þið í huga?
Við ætlum að sýna ykkur svolítið. Viljið þið koma með okkur í svolítið ferðalag?
Já, já, svaraði Lýður spenntur og leit á Loka. Loksins er eitthvað spennandi að gerast. Komum!
Að svo mæltu beygði Adam sig rólega niður og bauð Loka og Lýð að setjast í lófa sér. Hann lyfti þeim varlega upp og síðan læddust þau að útidyrunum, opnuðu þær hljóðlega og fóru út, lokuðu síðan á eftir sér og héldu heim á leið. Ekkert bólaði á mömmu og pabba og þess vegna fóru þau rakleiðis inn í herbergið sitt. Nú var komið að þeim Loka og Lýð að verða spenntir og undrandi yfir öllu því sem fyrir augu bar. Þarna var ótrúlega margt spennandi að sjá. Vááá! Þarna voru hlutir sem þeir höfðu þeir aldrei séð og mörg leikföngin voru einsog sniðin fyrir þá. Allt var svo lítið og smátt, alveg einsog þeir.
Megum við skoða dótið ykkar, spurði Lýður og spennan leyndi sér ekki.
Já, alveg sjálfsagt, svaraði Embla og sýndi þeim lítinn leikfangahest.
Loki og Lýður mátuðu hvor sinn kúrekahattinn og fóru báðir á bak.
Af stað, gólaði Lýður, en ekkert gerðist.
Þetta er nú lítið spennandi, sagði Loki.
Þá tók Adam hestinn og leyfði þeim að kynnast alvöru útreiðatúr með því að hreyfa sjálfur hestinn.
Íííhhaaa, hrópaði Lýður á meðan hann sveiflaði kúrekahattinum. Meira! Meira!
Aaaahhh... Hleypið mér af, ég get ekki meir, hrópaði Loki skelkaður með lokuð augun og ríghélt sér í taumana á leikfangahestinum.
Embla hjálpaði þá Loka af baki og lagði hann á sófann í dúkkuhúsinu sínu.
Úff... Þetta er nú meiri ótemjan, sagði Loki alveg uppgefinn. Usss... Það er einhver sofandi í rúminu þarna, sagði Loki svolítið hissa þegar hann horfði í kringum sig í þessu ævintýralega dúkkuhúsi.
Ha... nei... Þetta er bara dúkkan mín, sagði Embla, hún er ekki lifandi einsog þið.
Er hún þá dáin? spurði Loki nokkuð smeykur.
Nei, hún er bara leikfang. Sjáðu!
Þá tók Embla upp dúkkuna og skrúfaði af henni höfuðið.
Ahhah...
Í sömu andrá leið yfir Loka.
Loki! Loki! Er ekki allt í lagi? Fáðu þér vatnssopa, sagði Embla áhyggjufull.
Loki opnaði augun og var greinilega mjög ringlaður.
Hvar er ég?
Þú ert í heimsókn heima hjá okkur, sagði Embla í móðurlegum tón og rétti honum lítinn leikfangabolla fullan af vatni. Fáðu þér vatnssopa og þá mun þér líða betur.
Á meðan á öllu þessu stóð voru Adam og Lýður svo uppteknir í kúrekaleik að þeir tóku ekki eftir neinu.
Förum út í garð. Mig langar að sýna ykkur bátinn minn, sagði Adam.
Nýju vinunum leist vel á hugmyndina og Loki gat einnig fengið sér ferskt loft eftir skelfinguna að sjá hauslausu dúkkuna. Nú var spennandi bátsferð framundan, en hann var ekki alveg viss um hvort hann ætti að þora.
Adam lagði bátinn á pollinn og sagði hátt og skýrt:
Allir um borð!
Lýður lét ekki segja sér það tvisvar og stökk um borð.
Ég verð bara hérna, sagði Loki smeykur og var greinilega búinn að fá nóg af ævintýrum þennan morguninn.
Adam og Lýður voru ekki á sama máli og gátu eflaust leikið sér endalaust með bátinn. Það var svo rosalega gaman að sigla um síkin sem Adam hafði útbúið. Embla og Loki létu sér nægja að horfa á.
Hvað er í gangi, heyrðist skyndilega í fjarska.
Adam og Embla litu við og sáu gamla manninn koma á harða spretti í áttina til þeirra.
Váá... hvað hann getur hlaupið hratt miðað við að hann er alveg eldgamall, sagði Adam dálítið hissa við Emblu, en kom um leið auga á svipinn á gamla manninum.
Þau urðu dálítið óttaslegin. Nú rann upp fyrir þeim að þau höfðu í raun og veru farið inn í hús gamla mannsins og numið Loka og Lýð á brott í leyfisleysi.
Þið hafi valdið mér miklu vonbrigðum, sagði sá gamli móður og másandi.
Lýður komdu þér af bátnum og Loki komdu hingað undireins, þið eigið að vita betur og fara ekki svona út fyrir garðinn.
Loki hraðaði sér skömmustulega til gamla mannsins meðan Adam stýrði bátnum rólega í land með Lýð innanborðs. Sá gamli tók síðan upp litlu vinina sína og setti þá í jakkavasann þungur á brún.
Ykkur er greinilega ekki treystandi fyrir þessu mikilvæga leyndarmáli, sagði sá gamli við systkinin og gekk rösklega í átt að húsinu sínu.
Adam og Emblu leið ekki vel.
Við vorum bara að leika við þá! kallaði Embla hálfskælandi á eftir honum.
Adam reyndi að hugga systur sína.
Af hverju þurftum við að klúðra þessu? Það var svo gaman að leika við þá en nú fáum við aldrei að leika við þá aftur. Ég vildi að við hefðum ekki gert þetta. Þau voru virkilega vonsvikin. Nú fáum við aldrei að hitta Loka og Lýð og hitt fólkið sem við áttum að fá að kynnast.
Systkinin gengu niðurlút heim til sín og inn í herbergið sitt. Mamma og pabbi voru ekki enn komin á fætur. Þau horfðu sorgmædd á öll leikföngin sín en vildu miklu freka leika við Loka og Lýð. Þeim fannst vænt um öll leikföngin sín en voru alveg tilbúin að skipta á þeim öllum, bara ef þau gætu fengið hitta pínulitla fólkið aftur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.