2. kafli: Smá-saga af smáu fólki

Morguninn eftir vöknuðu Adam og Embla við ilminn af nýbökuðu brauði. Þannig var alltaf svo gaman að vakna. Þau gengu inn í eldhúsið með stírurnar í augunum og biðu spennt eftir góðgætinu sem mamma var að útbúa.

„Fáið ykkur sæti og gæðið ykkur á nýbökuðu brauði elskurnar mínar,“ sagði mamma. „Við förum síðan í heimsókn til gamla mannsins.“

„Æ-nei! Við viljum ekki fara þangað,“ svaraði Adam fyrir hönd systkinanna.

„Svona, svona, við pabbi förum með ykkur. Við viljum auðvitað fá skýringu gamla mannsins á atburðum gærdagsins,“ svaraði mamma um hæl.

Eftir góða morgunstund heima fyrir var ferðinni heitið til þess gamla. Foreldrarnir leiddu börnin sín en þeim var engan veginn rótt. Pabbi hringdi dyrabjöllunni og eftir dágóða stund voru dyrnar opnaðar mjög rólega og þarna stóð gamli maðurinn.

„Jæja, svo þið eruð komin, það er nú gott,“ sagði hann vingjarnlega. „Ég var einmitt að laga kaffi og útbúa íste handa börnunum í eldhúsinu. Gjörið svo vel að fylgja mér.“

100_4982fiskabur2

Fjölskyldan gerði sig líklega að fylgja þeim gamla inn í húsið en þau urðu furðu lostin um leið og inn var komið því þar blasti við óvænt sjón. Þarna var til dæmis veggur, þakinn bókahillum, en einnig mörgum litlum stigum, litlum hurðum og lítil hengibrú lá frá bókahillunum yfir í tré sem virtist vaxa upp úr miðju stofugólfinu. Í trénu voru bandspottar út um allt. Þau komu einnig auga á lítið hús í laufþykkninu og á nokkrum stöðum á trénu voru einskonar sólpallar með pínulitlum haganlega smíðuðum stólum og á trjátoppnum mátti sjá litla útsýnistunnu. Borðstofuborðið og  sumir stólarnir voru með litla hringstiga utan um fæturna. Á veggjunum var fjöldinn allur af litlum götum og við götin voru litlar svalir. Sumar svalirnar voru alveg upp við loftið og á sumum þeirra voru rennibrautir sem lágu á næstu svalir fyrir neðan. Einnig var þarna lítil leikfangalest og fínlegir lestarteinar virtust liggja um allt húsið. Þeir lágu gegnum göt á veggjum og á einum stað yfir opið fiskabúr. Í fiskabúrinu var mikill gróður og litlir fallegir torfufiskar.

100_4976fiskabur

Ofan á vatnsyfirborðinu var lítil bryggja og við bryggjuna lá lítill árabátur. Þau virtu þetta allt fyrir sér með spurnarsvip.

Á meðan hellti gamli maðurinn ístei í stóra könnu og rétti börnunum síðan tvö glös og hellti síðan í þau úr könnunni.

„Ég ætla fyrst að fá að ræða við foreldra ykkar. Á meðan getið þið farið út á veröndina og drukkið þetta íste í sólinni. Ég bið ykkur samt um, sama hvað gerist, að stíga alls ekki út á grasið í garðinum,“ sagði sá gamli.

Þeim fannst það skrýtið og dularfullt af hverju þau mættu ekki stíga á grasið því oftast nær var það nú í lagi. Þau gengu síðan á eftir gamla manninum út á veröndina þar sem hann lagði könnuna á lítið borð rétt við garðröndina. Þarna gátu þau fengið sér sæti og virt fyrir sér garðinn.

„Vááá! Mikið er þetta fallegur garður,“ sagði Embla og horfði stóreyg í kringum sig.

„Það finnst mér líka en við verðum víst að láta okkur nægja að skoða hann héðan,“ sagði Adam. Ekki þori ég að óhlýðnast gamla manninum.

Allt í einu heyrðist: PLÚBBS! Eitthvað hafði dottið í könnuna með skvampi og nú valt hún um koll og innihaldið gusaðist út á grasflötina við veröndina og svo sáu þau einhverja veru skjótast eldsnöggt inn í næsta runna. Þau trúðu varla sínum eigin eyrum því þau heyrðu ekki betur en að einhver væri að muldra eitthvað óskiljanlegt úr sömu átt. Þau ráku upp óp:

Iste

„MAMMA! PABBI!“ hrópuðu þau óðamála um leið og þau hlupu inn í húsið.

„Við sáum einhverja pöddu sem talaði!“ sagði Adam móður.

„Já, og hún hljóp á tveim fótum einsog manneskja!“ sagði Embla.

„Hvaða vitleysa er í ykkur krakkar,“ svaraði pabbi og hló við.

„Ykkur hlýtur að hafa missést. Þið eruð nú mjög hugmyndarík,“ sagði mamma góðlátlega og horfði kímin á gamla manninn.

„Þetta sem þið sáuð í garðinum rétt í þessu er einmitt hluti af skýringunni sem ég hét í gær að segja ykkur frá, sagði sá gamli. Þessi „padda“ sem þið sáuð hérna áðan er í raun pínulítil manneskja, ein af mörgum sem búa hérna hjá mér. Ég er búinn að fylgjast með þeim síðan ég byggði þetta hús og vitneskjan um þau hefur verið leyndarmál sem ég hef þurft að varðveita mjög vel í öll þessi ár til þess að vernda þessa litlu vini mína. Þegar ég sá svo Emblu koma yfir garðvegginn í gær, þá varð ég skelfingu lostinn því  hún hafði ekki hugmynd um pínulitla fólkið sem var í mikilli lífshættu án þess að hún vissi. Þess vegna brá ég á það ráð í öllu fátinu að grípa til teygjubyssunnar. Mér þykir mjög leitt að hafa meitt þig, Embla.

Öll fjölskyldan starði á þann gamla einsog hann væri búinn að missa vitið.

„Ha! Hvað ertu að segja,“ sagði pabbi, „áttu við að pínulítið fólk búi í garðinum hjá þér? „Áttu ekki við að það sé dvergar?“

„Eða kannski frekar álfar?“ Sagði Adam.

„Nei, nei! Þetta er pínulítið fólk,“ sagði sá gamli, „og þetta litla fólk er alveg einsog við mannfólkið, bara miklu minna. Hér á Íslandi hefur það búið lengur en mannfólkið sjálft, flest þeirra býr fjarri mannabyggðum en það sem er í garðinum hjá mér bjó hérna löngu á undan mér. Þegar mannfólkið flutti hingað byggðist allt svo hratt að pínulitla fólkið hafði engan tíma til að forða sér. Ég kynntist þeim og hef gætt þeirra allt frá því ég byggði þetta hús og hef varðveitt þetta leyndarmál og að þeirra ósk ekki sagt neinum frá því fyrr en ykkur nú.“

„En af hverju ertu að segja okkur frá þessu?“ spurði pabbi.

„Nú, ég sá strax að þið eruð indælar manneskjur og svo varð ég auðvitað ég útskýra hegðun mína í gær fyrir ykkur öllum fjórum. Ég er orðinn gamall maður og satt að segja finnst mér gott að geta loksins deilt þessu leyndarmáli með þeim sem mér finnst að ég geti treyst.“

„Fáum við að sjá þau aftur,“ spurði Embla.

„Já, þegar þið eruð tilbúin og þegar pínulitla fólkið er tilbúið að hitta ykkur,“ sagði sá gamli. „Þið Adam og Embla getið farið út á verönd og athugað hvort þau komi og tali við ykkur. Mér þykir ekki ólíklegt að þau séu einnig talsvert spennt fyrir að kynnast ykkur. Miðað við frásögn ykkar áðan, þegar eitthvað datt í könnuna, þá bendir ýmislegt til að þetta hafi verið annað hvort hann Loki eða þá hann Lýður. Þeir eru alltaf eitthvað að bralla, ef ég þekki þá rétt.“

Adam og Embla voru nú orðin verulega spennt og gengu hægum skrefum út á veröndina og litu vandlega í kringum sig. Pabbi og mamma fylgdust með þeim í gegnum gluggann, alveg jafn spennt. Adam og Embla beygðu sig í hnjánum og horfðu gaumgæfilega í allar áttir. Í fyrstu komu þau ekki auga á neitt kvikt. Ekkert pínulítið fólk virtist í augsýn . Allt í einu sáu þau hreyfingu í einum runnanum skammt frá. Blaut, pínulítil vera í vínrauðri ullarpeysu, brúnum sokkabuxum, bundnum leðurskóm og með prjónahúfu sem náði ekki að hylja alla ljósu lokkana, gekk ákveðin og örugglega til systkinanna. Þau sáu ekki betur en að veran væri í talsverðu uppnámi.

„Góðan og blessaðan daginn bæði tvö, Lýður heiti ég og ég líð ekki svona framkomu! Ég ætlaði að fá mér smá sundsprett í lauginni hjá ykkur en vatnið var bara ískalt! Ég hefði geta drukknað!“

„Þú átt við,  í ísteinu okkar,“ sagði Adam. „Það á nú eiginlega ekki að synda í því,  heldur drekka það og þetta var drykkjarkanna sem þú hélst að væri sundlaug.“

„Já, það hlaut að vera, þú segir nokkuð,“ sagði pínulitla veran sem kallaði sig Lýð. „Ég fann nefnilega bara ansi gott bragð þegar ég var alveg að drukkna. Leyfist mér að kynna vin minn Loka. Loki! kallaði Lýður. Okkur er alveg óhætt. Þessi börn ætluðu ekki að drekkja okkur. Ég datt víst bara í drykkinn hjá þeim.“

Í sömu andrá kom önnur pínulítil vera út úr runnanum í mosagrænni ullarpeysu, dökkgrænum sokkabuxum, skinnskóm og með dökkt, úfið hár.

„Sælt veri fólkið! Loki heiti ég og við Lýður erum hinir mestu mátar. Ég bið ykkur afsaka að ég faldi mig á meðan ég var að fylgjast með ykkur. Ég er bara ekki eins opinskár og Lýður.“

„Það er gaman að kynnast ykkur, Loki og Lýður. Ég heiti Adam og þetta er hún Embla systir mín.“

Nú gekk sá gamli út á veröndina til þeirra.

„Jæja, ég sé að þið hafið hitt Loka og Lýð. Það er nú gott, í bili. Á morgun kynna kannski Loki og Lýður ykkur fyrir öllu hinu pínulitla fólkinu. Þið verðið að skilja að það er talsverð nýlunda hjá þeim að að kynnast ykkur því þau hafa einungis umgengist mig í öll þessi ár.“

„Hinu? Hversu mörg eru þau eiginlega?“ spurðu systkinin.

„Við erum alveg milljóntrilljón,“ sagði Lýður

„Nei, kannski ekki alveg svo mörg, ætli hundrað sé ekki aðeins nær lagi,“ sagði Loki.

„Gamli maðurinn ítrekaði nú að pínulitla fólkið þyrfti að venjast þeirri staðreynd að fleiri en hann væru á ferli í húsinu og á veröndinni hans. Þau væru bara vön honum og þyrftu sitt svigrúm til þess að hefja ný kynni.“

Eftir að hafa spjallað dágóða stund við gamla manninn var ákveðið að þau kæmu aftur í heimsókn daginn eftir. Fjölskyldan kvaddi gamla manninn og þakkaði fyrir sig og hélt síðan heim.

Adam og Embla gátu ekki hætt að tala um það sem fyrir augu og eyru hafði borið og kynni sín af þessum skrýtnu furðuverum, þeim Lýð og Loka. Þeir höfðu komið þeim svo skemmtilega fyrir sjónir. Þeim fannst þau ekki geta beðið eftir að morgundagurinn rynni upp og þau fengju að hitta þá aftur og hitta jafnvel fleira pínulítið fólk. Þetta hafði aldeilis verið viðburðaríkur dagur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband