4.11.2010 | 09:03
1. kafli: Smá-saga af smáu fólki
Einu sinni var lítil fjölskylda, enginn vissi nákvæmlega hvenær eða hvar, en eitt var þó víst, það var á eyju í Norður-Atlantshafi sem heitir Ísland.
Það var fallegt vor og sólin skein. Gamall maður stóð á verönd sinni og fylgdist með ungum hjónum sem voru að flytja í litla húsið í næsta nágrenni ásamt tveimur ungum börnum. Allir voru glaðir í bragði og hjálpuðust að við að bera inn búslóðina.
Húsið sem glaðlega fjölskyldan var að flytja inn í var smátt í sniðum miðað við stórt og tignarlegt hús gamla mannsins. Húsið hans stóð efst á hæðinni og minnti á kastala þar sem það reis upp yfir lágreistu húsunum í nágrenninu.
Þrátt fyrir að sá gamli byggi í stærsta og veglegasta húsinu var samt eitthvað leyndardómsfullt við þetta hús. Þar bjó gamli maðurinn einsamall og þegar einhverjir áttu við hann erindi, bauð hann þeim aldrei inn. Þó kom fyrir að hann bauð upp á kaffisopa á veröndinni fyrir framan húsið.
Bakgarðurinn var gríðarlega stór og umkringdur hárri girðingu sem minnti á virkisvegg. Hávaxin trén teygðu sig langt upp fyrir girðinguna og voru greinilega mjög gömul því þau voru með hæstu trjám á Íslandi.
Litla húsið við hliðina hafði staðið autt svo árum skipti. Þrátt fyrir smæðina var samt eitthvað svo fallegt við það. Þar sungu fuglarnir í garðinum í sífellu og sólin virtist skína meira á það en nokkurt annað hús.
Fjölskyldan var brátt búin að koma sér þokkalega fyrir í litla húsinu sínu. Pabbi og mamma lögðu sig fram um að lagfæra og fegra nýja heimilið með aðstoð barnanna.
Adam var 10 ára en Embla var 8 ára. Þau voru mjög góðir vinir þrátt fyrir að þau væru systkini.
Þau voru öll önnum kafin við að breyta og bæta nýja heimilið en það voru mörg verk sem pabbi og mamma þurftu að leggja lokahönd á meðan börnin léku sér. Adam kubbaði mikið og var oft í bílaleik með litlu bílana sína. Hann átti einnig fallegan trébát sem honum fannst gaman að leika sér með. Stundum gróf hann holur í garðinum og fyllti þær af vatni sem hann lét síðan bátinn sigla á og hann bjó til vegi fyrir bílana sína.
Embla átti nokkrar dúkkur og dúkkuhús sem hún og pabbi hennar byggðu saman. Dúkkurnar fengu stundum að fara í skemmtiferð í fallega trébátnum hans Adams. Systkinin höfðu líka mjög gaman að alls konar boltaleikjum svo sem fótbolta, handbolta, körfubolta, hornabolta og brennibolta.
Dag einn þegar þau voru að sparka bolta vildi þannig til að Adam sparkaði boltanum svo kröftuglega að hann sveif yfir háa garðvegginn hjá gamla manninum. Nú voru góð ráð dýr. Þeim stóð dálítil ógn af þessu gamla, dularfulla húsi og eina íbúa þess sem þau sáu stundum tilsýndar. Þess vegna þorðu þau ekki að biðja um leyfi til að fara inn í garðinn til þess að sækja boltann svo þau ákváðu þess í stað að klifra yfir girðinguna.
Embla klifraði upp á axlirnar á Adam. Hún gægðist í fyrstu yfir veggbrúnina og svipaðist um. Hún leit forvitin í kringum sig því garðurinn hafði hingað til verið henni hulinn. Hún hífði sig síðan upp á garðvegginn og var í þann mund að láta sig síga niður hinumegin þegar hún fann skyndilega sársauka í bakinu. Hún rak upp óp og ætlaði að flýta sér að snúa til baka sömu leið en fann í sömu mund fyrir sársauka í lærinu. Hún hraðaði sér hrædd aftur niður til Adams.
Hvað var eiginlegu um að vera? Þau litu dauðhrædd í kringum sig. Þau ráku upp stór augu þegar þau sá hvar gamli maðurinn stóð við opinn glugga á stóra húsinu. Þau sáu ekki betur en að hann væri með teygjubyssu í höndunum. Börnin trúðu varla sínum eigin augum og hlupu heim til sín eins hratt og fæturnir gátu borið þau. Háskælandi og lafhrædd komu þau vaðandi inn um dyrnar heima hjá sér.
Mamma! Pabbi! Gamli karlinn í stóra húsinu var á skjóta okkur, öskruðu Adam og Embla í kór.
Mamma og pabbi hlustuðu á söguna og trúðu vart sínum eigin eyrum og skoðuðu Emblu í krók og kring. Hún var dálítið aum eftir teygjuskotin tvö, en þó ekki stórslösuð.
Gamli maðurinn er búinn að missa vitið. Ég skal sko sýna honum í tvo heimana, sagði pabbi bálreiður á svip. Svo rauk hann í átt að útidyrunum en á sama augnabliki var barið að dyrum og pabbi þreif æstur upp dyrnar.
Þau rak í rogastans! Þarna stóð gamli maðurinn sem skömmu áður hafði verið að skjóta á þau með teygjubyssu. Þau sáu ekki betur en að hann væri dálítið leiður á svipinn þar sem hann stóð í gættinni með boltann þeirra í fanginu. Börnin földu sig á bak við mömmu sína.
Áður en nokkur gat komið upp orði, sagði gamli maðurinn:
Ég er hingað kominn til að biðja börnin afsökunar. Ég átti auðvitað ekki að skjóta á þau með teygjubyssunni. Nú langar mig að bjóða ykkur í kaffi til mín á morgun. Ég vil gjarnan útskýra hegðun mína ef þið vilduð vera svo væn að þiggja boðið.
Pabbi og mamma litu hvort á annað og voru dálítið ráðvillt á svipinn í fyrstu. Síðan kinkuðu þau kolli hvort til annars og pabbi svaraði dálítið hugsi á svipinn:
Allt í lagi, við komum.
Emblu og Adam var ekki alveg rótt við það svar.
Sigþór Björgvinsson, (Barcelona).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.