Á morgun segir sá duglegi – í dag sá lati

Hvað er að vera duglegur og hvað er að vera latur? Manneskja sem sefur út er ekki löt, hún er dugleg. Manneskjan sem gengur menntaveginn svo hún fái vel launað starf er ekki dugleg, hún er löt. Nú?

Sá sem vinnur lítið en fær mikið borgað hlýtur að vera latur. En sá sem vinnur mikið og fær lítið borgað hlýtur að vera duglegur. Sá sem sefur út og mætir seint í vinnuna sína trekk í trekk og að lokum missir hana; er hörkuduglegur, því hann nennir að standa í öllu þessu vandræðum; fá slæmt orð á sér, standa í þrasi við yfirmenn, missa vinnuna og leita að annarri vinnu – þetta er ekkert nema dugnaður. Hver skipti sem á að gera eitthvað skemmtilegt þarf að fara í allskonar reddingar til að útvega nokkra aura, þarf oft að neita sér um ýmislega skemmtilega hluti vegna peningaleysis,  manneskjan býr þröngt og borðar jafnvel alltaf sama ruslfæðið; en hún er hörkudugleg.

Sá lati vill alltaf gera verkefnin strax því hann nennir ekki að bíða með þau, nennir ekki að finna hjá sér ró til að bíða eða sleppa að gera hlutinn – allt þarf að gerast strax. Manneskjan er alltaf að huga að heilsunni því hún nennir ekki að vera veik.

Mikill misskilningur er á því að fólk sem vinnur mikið er duglegt, það vinnur mikið svo það eignist mikla peninga svo það getur gert skemmtilega hluti, borðað lúxusmáltíðir og búið í stórri íbúð sem alltaf er hrein; því þær nenna ekki að hafa hana skítuga. Þvílík leti!

Ætlaði að skrifa þennan pistil í gær en sökum dugnaðar beið ég með það þangað til í dag.

Leti-kveðjur,

Sigþór Björgvinsson, Reykjavík


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband